Æðstu stjórnendur Icelandair tóku þátt í útboði félagsins fyrir tæplega 94 milljónir og eru með kauprétt upp á rúmlega 23 milljónir. Þar af keypti Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, fyrir 17,5 milljónir og sjö aðrir í framkvæmdastjórn fyrir 58,5 milljón. Þrír stjórnarmenn keyptu fyrir samtals tæplega 18 milljónir með 4,4 milljóna kauprétt. Þetta kemur fram í tilkynningum til Kauphallarinnar vegna viðskipta fruminnherja.
Af stjórnendum félagsins keypti Bogi flest bréf, en Eva Sóley Guðbjörnsdóttir fjármálastjóri keypti fyrir 16 milljónir og Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs, keypti fyrir 12 milljónir.
Þau Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic, Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs, Elísabet Helgadóttir mannauðsstjóri, Tómas Ingason, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs og viðskiptaþróunar og Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair cargo, keyptu hvert fyrir 4,5-8 milljónir hvert, samtals fyrir 30,5 milljónir.
Svafa Grönfeldt keypti mest stjórnarmanna, en hún skráði sig fyrir 10 milljónum hluta. Úlfar Steindórsson stjórnarformaður keypti fyrir 5 milljónir og John F. Thomas stjórnarmaður fyrir 2,7 milljónir.
Ásamt þessu kemur fram í tilkynningunum að Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna hafi tekið þátt fyrir 283,5 milljónir og Skeljungur fyrir 126 milljónir. Var tilkynnt um þetta þar sem Eva Sóley situr í stjórn EFÍA og Birna Ósk er í stjórn Skeljungs. Tekið er fram í tilkynningum að þær hafi báðar vikið af stjórnarfundum félaganna þegar ákvörðun um kaupin var tekin.