Stjórnendur spá áframhaldandi fækkun starfa

Stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins spá því að starfsfólki muni fækka …
Stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins spá því að starfsfólki muni fækka á næstu sex mánuðum. mbl.is/Þorsteinn

Stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins telja að aðstæður í efnahagslífinu hér á landi verði verri eftir sex mánuði en þær eru núna. Er útlit fyrir áframhaldandi fækkun starfa á tímabilinu. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Gallup gerði meðal stjórnenda 448 stærstu fyrirtækja landsins, en 52% svörun var.

Samkvæmt niðurstöðunum vænta 43% þeirra sem svöruðu að aðstæður muni versna á næstu sex mánuðum, en 26% töldu að þær myndu batna. Í ferðaþjónustu eru væntingar minnstar um bætta stöðu þar sem 71% stjórnenda telur að ástandið muni versna en 18% að það batni og í byggingarstarfsemi búast 54% við verri stöðu en 8% að hún batni. Mestar væntingar um bata eru í fjármálastarfsemi þar sem 27% búast við verri stöðu en 46% við betri og þar á eftir kemur verslun þar sem 39% búast við verri stöðu en 38% betri.

Þegar horft er á núverandi aðstæður segjast 85% stjórnenda meta aðstæður í efnahagslífinu slæmar, en aðeins 2% telja þær góðar. Matið er lakast í byggingariðnaði, en jákvæðast í verslun, þar sem 8% telja aðstæður góðar.

Í tilkynningu á vef SA vegna könnunarinnar kemur fram að 29 þúsund manns starfi hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Af svarendum sögðust 34% stjórnenda búast við fækkun starfsfólks næsta hálfa árið, en 11% bjuggust við fjölgun. Segir þar að miðað við þetta spái stjórnendur því að starfsfólki fækki um 2% á tímabilinu, en sé það yfirfært á vinnumarkaðinn í heild sé það fækkun upp á 2.600 starfsmenn. Þá nái möguleg fækkun til allra atvinnugreina, en ferðaþjónustan sér fram á mesta fækkun, fjármálastarfsemi þar á eftir og næst verslun og iðnaður. Minnst fækkun er áætluð í sjávarútvegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka