Icelandair hefur sagt upp 88 starfsmönnum frá og með mánaðamótum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir að ástæðuna megi rekja til samdráttar í flugi vegna hertra ferðatakmarkana sem tóku gildi seinnipartinn í ágúst.
Stærstur hluti hópsins eru flugmenn eða 68 talsins, en auk þess var 20 starfsmönnum af ýmsum sviðum fyrirtækisins sagt upp. Þá ljúka enn fremur störfum um mánaðamót nokkrir tugir starfsmanna, sem voru á tímabundnum ráðningarsamningum.
139 flugmenn hafa starfað hjá Icelandair frá því í ágúst, og verða því 71 eftir uppsögnina. 421 flugmanni var sagt upp í apríl, en 114 uppsagnir síðan afturkallaðar.
Í tilkynningunni segir að félagið standi frammi fyrir áframhaldandi óvissu vegna kórónuveirufaraldursins. Eftir vel heppnað hlutafjárútboð sé staða þess hins vegar sterk og félagið vel í stakk búið til að komast í gegnum þá óvissu sem framundan er. Vonast félagið til að hægt verði að draga uppsagnirnar til baka um leið og ástandið batnar og eftirspurn eftir flugi tekur við sér á ný.
Hertar aðgerðir á landamærum, sem vísað er til í tilkynningunni, tóku gildi 19. ágúst. Frá þeim tíma hefur öllum farþegum sem koma til landsins verið gert að fara í skimun við komuna til landsins, sæta 4-6 daga sóttkví og fara því næst í aðra skimun.
Fyrir þann tíma þurftu farþegar aðeins að fara í skimun, og voru farþegar frá lágáhættusvæðum, sem þá voru Þýskaland og öll Norðurlönd utan Svíþjóðar, undanskildir skimun.