Guðmundur A. Birgisson, bóndi og fjárfestir sem jafnan er kenndur við bæinn Núpa í Ölfusi, játaði skilasvik og peningaþvætti í tengslum við gjaldþrot sitt árið 2014 upp á samtals 300 milljónir. Líkt og mbl.is hafði fyrst greint frá var Guðmundur meðal annars ákærður fyrir að halda frá skiptastjóra fasteignum á Spáni, Flórída og í New York, listaverki og eign í bandarískum fjárfestingasjóði.
Þingfesting málsins fór fram í lok ágúst og fékk Guðmundur þá frest til að taka afstöðu til ákærunnar. Í framhaldinu fór þinghald fram í síðustu viku þar sem Guðmundur játaði brot sín að fullu. Var málið því flutt sem játningarmál þar sem málsflutningur fjallaði um þyngd refsingar í málinu. Þetta staðfestir Finnur Vilhjálmsson, saksóknari í málinu, í samtali við mbl.is, en Rúv greindi fyrst frá játningunni.
Finnur vildi ekki gefa upp hver krafa ákæruvaldsins um refsingu væri, en sagði að tekið væri mið af játningu hans við refsikröfuna.
Miðað við frest dómara til að kveða upp dóm má gera ráð fyrir að dómur falli í málinu á næstu þremur vikum.
Guðmundur var úrskurðaður gjaldþrota í lok árs 2013. Hafði hann þar áður verið mjög umsvifamikill í íslensku atvinnulífi og var hann meðal annars hluthafi í Sláturfélagi Suðurlands, HB Granda, Hótel Borg og fleiri félögum. Þá var hann einn af forystumönnum félagsins Lífsvals, sem keypti jarðir um allt land á árunum fyrir hrun. Félagið komst seinna í eigu Hamla, dótturfélags Landsbankans.
Þrotabú Guðmundar fékk viðurkenningu gjaldþrotaskiptanna í Bandaríkjunum í júlí árið 2015 og komst þannig yfir eignir Guðmundar erlendis. Við sölu þeirra fengust 293,9 milljónir, auk þess sem hann hafði fengið arð upp á 70.647 Bandaríkjadali vegna fjárfestinga í Bandaríkjunum á árunum 2014 og 2015.
Sem fyrr segir voru eignir Guðmundar ýmiskonar sem hann hafði ekki gefið upp við gjaldþrotaskiptin. Þannig var hann beinn eigandi fasteignar í Alicante á Spáni, en félag í hans eigu var eigandi fasteignarinnar í Naples í Flórída í Bandaríkjunum. Hafði Guðmundur áður verið eigandi hennar, en afsalað sér eigninni til félagsins Palm Tree Associates LLC (sem áður hét Gummi Associates LLC) og var í eigu Guðmundar. Þá átti Palm Tree, í gegnum félagið Gummi Bear Associates Realty Company LLC, allt að 75%, en minnst helmingshlut, í tveimur íbúðum í svonefndri Plaza-byggingu á Manhattan í New York í Bandaríkjunum. Stendur byggingin við Central Park, í næsta nágrenni við the Ritz Carlton Central Park-hótelið og Trump Tower.
Fram kom í ákæru málsins að Guðmundur hefði ekki upplýst um eignarhald sitt á fyrrgreindum eignum í skýrslutöku hjá skiptastjóra í byrjun árs 2014 og þá hefði hann veitt rangar eða villandi upplýsingar um þær í tölvupósti til skiptastjóra árið 2015, en spurt var sérstaklega um „íbúð í Naples Flórída“, „íbúðir í Plaza hótel New York“ og „hús á Spáni“.
Jafnframt var Guðmundur sagður í ákærunni hafa ráðstafað eignunum eftir gjaldþrotið í því augnamiði að koma þeim undan. Afsalaði hann meðal annars eigninni í Flórída til félagsins Painted Pelican LLC sem var stofnað árið 2014 og Guðmundur var einnig raunverulegur eigandi að. Þá gerði hann einnig tilraun til nafnabreytingar og breytingar á gildandi félagssamþykktum Gummi Bear Associates Realty Company árið 2015. Segir í ákærunni að þær breytingar hafi efnislega falið í sér að rýra eða girða fyrir möguleika og úrræði þrotabúsins, í gegnum yfirvofandi yfirtöku þess á Palm Tree Associates, til að hafa áhrif á eða ráðstafa eignunum.
Til viðbótar seldi Guðmundur listaverk eftir hollenska listmálarann Corneille í gegnum uppboðshúsið Christie‘s í Amsterdam fyrir 22 þúsund evrur og gaf ekki upp eign Palm Tree Associates í bandarískum fjárfestingasjóði. Var eignin, miðað við upphaflegt eiginfjárframlag árið 2006, að fjárhæð 200 þúsund Bandaríkjadalir. Var hann áður skráður fyrir eigninni í eigin nafni en flutti hana yfir á Gummi Associates árið 2009. Af þessari verðbréfaeign var reglulega greiddur út arður með ávísunum til Gummi Associates á árunum 2014 og 2015, samtals 88.500 dalir. Taldi Guðmundur þessar upphæðir fram sem arðgreiðslur félagsins á bandarískum skattaskýrslum. Innleysti Guðmundur samtals 70.647 dali af bankareikningi félagsins eftir að hann var úrskurðaður gjaldþrota og þar til þrotabúið komst yfir eignirnar.
Guðmundur var annar umsjónarmanna minningarsjóðs auðkonunnar Sonju Zorrilla, en hún lést árið 2002 og er talið að eignir hennar hafi numið um tíu milljörðum króna. Efnaðist hún vel á fjárfestingum á Wall Street, en sjóðurinn átti að styrkja langveik börn á Íslandi og í Bandaríkjunum.