Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og leiðtogi demókrata í deildinni, leggur til að bandarísku flugfélögin fái frekari ríkisaðstoð en þau eru mörg hver byrjuð að segja upp starfsfólki að nýju.
Ummæli Pelosi höfðu strax áhrif á verð hlutabréfa í flugfélögunum en óvíst er hvert framhaldið verður því repúblikanar í fulltrúadeildinni komu í veg fyrir að frumvarpið fengi flýtimeðferð í deildinni.
Pelosi bað í gær stjórnendur bandarískra flugfélaga að fresta því að segja upp starfsfólki og senda það í launalaust leyfi. Lýsti hún yfir stuðningi við að ríkið myndi grípa inn með annað hvort eingreiðslu eða björgunarpakka. Að hennar sögn eru gríðarlegir hagsmunir í húfi enda um tugþúsundir heimila sem eiga hlut að máli.
Stærstu flugfélög Bandaríkjanna hafa í vikunni sagt upp yfir 30 þúsund starfsmönnum en í byrjun október lauk hlutabótaleiðinni.
Á miðvikudagskvöld tilkynntu flugfélögin American og United að þau myndu senda 19 þúsund og 13 þúsund starfsmenn í launalaust leyfi.