Eins og fjallað hefur verið um er í nýrri fjármálaáætlun gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs hækki í 1.250 milljarða króna í lok þessa árs, og verði 430 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þá er áætlað að skuldir haldi áfram að hækka fram til ársins 2025, en þá muni þær nema 59,2% af vergri landsframleiðslu.
Kristrún Mjöll Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, segir í samtali við Morgunblaðið að staðan nú sé ekki ákjósanleg, en við hana verði ekki ráðið, enda sé stór hluti af hallarekstri ríkisins tilkominn vegna tekjufalls og hruns í atvinnustigi. Hún segir að stjórnvöld hafi gripið til skynsamlegra aðgerða.
„Það sem verið er að gera núna er að gefa í, svo að ríkið missi ekki tekjustofna í framtíðinni. Hættan er sú að ef fólk og fyrirtæki eru ekki gripin núna, og grunnþjónustu verði ekki viðhaldið, þá dragist kraftur úr hagkerfinu síðar meir. Það gæti orðið til þess að skuldir yrðu enn hærra hlutfall af landsframleiðslu síðar meir.“
Hún segir að mikilvægt sé fyrir stjórnvöld að reyna að hafa stjórn á aðstæðum, bregðast hratt og örugglega við og stýra fjármagni í rétta átt, í stað þess að bregðast við eftir á. „Ríkissjóður Íslands hefur verið heppinn að því leyti að það hefur verið mikill hagvöxtur hér undanfarin ár, þannig að það gekk hratt á skuldahlutfallið. Þriðjungur af minnkun skuldahlutfallsins eftir hrun kom til af því að hagkerfið óx.“
Kristrún segir að íslenska ríkið ráði vel við að skulda 60% af landsframleiðslu árið 2025, eins og spáð er.
Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að sú forgangsröðun ríkisins að greiða niður skuldir í uppsveiflu síðustu ára sé nú að skila sér. Svigrúm sé til skuldsetningar í þessari kreppu. „Ég tel að áherslur stjórnvalda í fjármálaáætluninni séu réttar, þ.e. við vitum að hallarekstur er óumflýjanlegur á næstu árum. Í stað þess að ráðast í miklar skattkerfisbreytingar til að brúa hallarekstur eru útgjöld aukin til fjárfestinga og nýsköpunar. Aðgerðir sem skapa bæði störf og hagvöxt til framtíðar. Tekjuskattslækkunin mun auka ráðstöfunartekjur tekjulægsta hópsins og lækkun tryggingagjalds eykur svigrúm hjá fyrirtækjum til að taka á sig komandi launahækkanir, a.m.k. að einhverju leyti.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.