Þekkjum hvað markaðurinn þarf

Fjölskyldufyrirtæki. Brynjar Húnfjörð stýrir framleiðslunni, Brynja Sif Ingibersdóttir sér um …
Fjölskyldufyrirtæki. Brynjar Húnfjörð stýrir framleiðslunni, Brynja Sif Ingibersdóttir sér um bókhald og innheimtu og Óskar Ingi Húnfjörð, er framkvæmdastjóri. mbl.is/Sigurður Bogi

Undirstöður fyrir girðingar, götuskilti og fleira, umferðareyjar, skiltasteinar, árekstravarnir og umferðartálmar eru meðal þess sem Íslandshús ehf. á Ásbrú í Reykjanesbæ framleiða undir vörumerkingu Dvergarnir. Þetta eru fjölbreyttar einingar úr járnbentri hágæða steinsteypu sem hafa fengið góðar viðtökur á markaðnum.

Tengistykkin auka notagildi

Í verksmiðju Íslandshúsa eru einingarnar framleiddar í stálmótum sem sérsmíðuð eru á staðnum. Þar eru einnig framleidd fjöldi sérhannaðra tengistykkja sem eru heitgalvanhúðuð eða úr ryðfríu stáli. Stykkin passa ofan á allar einingar Íslandshúsa og auka notagildi þeirra til muna.

„Við þekkjum hvaða vörur markaðurinn þarf. Samkvæmt því högum við framleiðslu okkar. Vöruþróun er annars stór þáttur í öllu okkar starfi. Viðskiptavinir koma oft með óskir um nýjar vörur sem við þá útfærum og framleiðum samkvæmt þeirra þörfum,“ segir Óskar Ingi Húnfjörð, framkvæmdastjóri Íslandshúsa.

Íslandshús voru stofnuð fyrir um sjö árum, með það markmið að hefja framleiðslu á forsteyptum stöðluðum einingum sem raða mætti saman svo úr yrðu ýmiss konar hús. Verkfræðingar ásamt Óskari þróaðu nýjar lausnir að slíkri framleiðslu. Áður en að því kom óskuðu Reykjaneshafnir eftir því við Óskar að fá framleiddar sjósökkur; það er þungar forsteyptar múffur til að setja utan um frárennslisrör fyrir skolp sem liggja langt í sjó. Því kalli var svarað jákvætt.

Styrkur í fjölskyldurekstri

„Þetta var verkefni af öðrum toga en ég hafði séð fyrir, en þarna fór boltinn samt að rúlla,“ segir Óskar og leggur áherslu á að Íslandshús sé lítið fjölskyldufyrirtæki – og í því felist styrkurinn. Sjálfur sér hann um stjórn fyrirtækisins, vöruþróun og markaðsmál, Brynja Sif Ingibersdóttir, kona hans, annast bókhald og innheimtu og Brynjar, sonur þeirra,stýrir framleiðslu og gæðamálum. Því má segja að allt sé unnið á sama stað og af fjölskyldunni, það er hönnun vörunnar, smíði steypumóta og járnbindinga, steypa eininga, smíði tengistykkja, og hönnun markaðsefnis. Er starfsemin annars betur kynnt á islandshus.is og á vefversluninni dvergarnir.is

Dvergarnir eru fjölbreytt framleiðsluvara og framleiðir fyrirtækið nú nærri 30 tegundir af stólpum allt frá þrjátíu kílóum til tveggja tonna og eru vörunúmerin í tengistykkjum nú komin yfir 50. Steypan sem í þá fer er mjög veðurþolin og uppfyllir ýtrustu kröfur um styrk, því standast forsteyptu einingarnar mikið álag.

Hannað í þrívídd

„Vörurnar eru hannaðar í þrívídd og útkoman er heildstæð vörulína. Allt er framleitt á lager, 700-1.000 tonn á ári, svo varan er jafnan tiltæk þegar kaupendur hafa samband. Raunar er mjög æskilegt samkvæmt öllum stöðlum að steypt vara líkt og héðan kemur hafi harðnað í nokkurn tíma áður en hún fer í notkun. Hér eru á bilinu 5-7 starfsmenn, veltan hefur verið að aukast um 20-30% á ári og markaðsstaðan er góð,“ segir Óskar.

Markaðurinn fyrir Dvergana er í raun þrískiptur, segir framkvæmdastjórinn. Í fyrsta lagi byggingavöruverslanir, þangað sem almenningur og fólk í framkvæmdum kaupir vöruna. Annar markhópurinn eru stærri fyrirtæki, stofnanir og verktakar, og sá þriðji sveitarfélögin.

Umferðarlausnir henta

„Víða í bæjum landsins standa yfir framkvæmdir um þessar mundir og til dæmis við götur og bifreiðastæði. Þar erum við með umferðalausnir sem henta. Þar nefni ég til dæmis forsteyptar umferðareyjur, sem við köllum Sóley, Fagurey og Borgarey, sem hentar vel þegar aðgerðir þarf til að stemma stigu við hraðakstri. Þrengingar á götum, sem má fjarlægja síðar, ef aðstæður breytast og geta þá nýst annars staðar,“ segir Óskar Ingi og bætir við að lokum:

„Þá erum við með lausnir á bílaplönum til stýringa og afmörkunar, með Langhólma og Borgarhólma. Einnig ýmsar undirstöður sem við bjóðum, stykki er veita góða festu og hafa fjölþætt notagildi. Endalausar og spennandi útfærslur í boði, en eins og ég segi alltaf að kjörorð okkar sé að við framleiðum lausnir.“

Umferðareyjarnar eru framleiddar í ýmsum útfærslum.
Umferðareyjarnar eru framleiddar í ýmsum útfærslum. mbl.is
Grind með steypustyrkarstáli í skiltastein soðin saman.
Grind með steypustyrkarstáli í skiltastein soðin saman. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK