Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, vakti máls á fyrirhugaðri hækkun áfengisgjalds í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. Telur hún að hækkunin komi sérstaklega illa niður á veitinga- og öldurhúsum sem eigi þegar í miklum rekstrarvanda.
„Veitingahús og barir sem nú róa lífróður fá þessa hækkun setta á sig af hálfu stjórnvalda. Það þarf að vera eitthvert samhengi á milli veruleikans og aðgerða stjórnvalda og þessi hækkun er ekki nálægt því að ríma við þá stöðu sem veitinga- og öldurhús standa frammi fyrir,“ segir Þorbjörg Sigríður.
Hún bendir á að staðan í miðbænum endurspegli þetta. Við blasi atvinnuleysi í þessum geira. „Það er eins og það vanti upp á þann skilning að veitingahúsin eru vitaskuld hluti af þeirri keðju og því höggi sem ferðaþjónustan er að verða fyrir,“ segir Þorbjörg.