„Við erum að ná tiltölulega góðum árangri í því að verja heimilin að einhverju leyti. Stýrivaxtalækkanir og fleira eru enn að fara í gegnum kerfið. Áhrifin eru enn að koma fram og koma ekki endilega að fullu fram fyrr en óvissan minnkar og fyrirtækin fara að nýta þessa lágu vexti til að fjárfesta.“
Þetta koma fram í máli seðlabankastjórans á fundi peningastefnunefndar. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun að hún hygðist halda stýrivöxtum bankans óbreyttum, 1%. Nefndin hefur lækkað vexti fjórum sinnum það sem af er ári og nemur lækkunin samtals tveimur prósentustigum. Vextir hafa aldrei verið jafn lágir á Íslandi.
Að sögn Ásgeirs er ljóst að horfur eru verri. Hins vegar bindur hann vonir við að vel takist til með að ná tökum á þriðju bylgju kórónuveirusmita hér á landi. „Það eru verri horfur. Við erum að sjá þriðju bylgjuna, sem við vonandi náum tökum á,“ segir Ásgeir og bætir við að veikara gengi og lægri vextir muni skapa efnahagsbatann.
Aðspurður segir hann ekki tilefni til að hafa áhyggjur af verðbólgu, en líkt og fram kom í morgun jókst verðbólga milli fjórðunga og mælist nú 3,2%. „Verðbólga hefur aukist aðeins vegna þess að gengið gaf eftir. Þau áhrif munu væntanlega ganga niður.“