Verði leiðandi í þróun líftæknilyfja

„Árið 2018 gerðu Alvotech og HÍ samstarfssamning, sem svo varð …
„Árið 2018 gerðu Alvotech og HÍ samstarfssamning, sem svo varð grunnurinn að nýrri námsleið í iðnaðarlíftækni,“ segir Sesselja. „Þar gefst okkur tækfæri til að mennta næstu kynslóð starfsmanna og HÍ nýtur góðs af þökk sé t.d. þeim tuttugu sérfræðingum Alvotech sem taka þátt í kennslu við háskólann.“ Kristinn Magnússon

Starfsemi Alvotech er gott dæmi um hversu ábatasamur rekstur rannsókna- og nýsköpunarfyrirtækja getur orðið þegar vel tekst til, og ungt nýsköpunarfyrirtæki aukið fjölbreytni í íslensku atvinnulífi samhliða því að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið. Fyrirtækið þróar og framleiðir líftæknilyfjahliðstæður (e. biosimilars) og gera áætlanir ráð fyrir að á næstu 10 árum muni tekjur félagsins nema allt að 500 milljörðum króna. Fyrstu lyf Alvotech eru væntanleg á markað árið 2023 og nokkrar tegundir líftæknilyfja eru nú í þróun hjá fyrirtækinu. Gangi áætlanir Alvotech eftir getur líftækniiðnaður á Íslandi orðið ein af burðarstoðum atvinnulífsins og skapað þannig mikil verðmæti til framtíðar. Þykir Alvotech hafa skipað sér í fremstu röð á sínu sviði á heimsvísu og náð eftirtektarverðum árangri á skömmum tíma.

Sesselja Ómarsdóttir er framkvæmdastjóri lyfjagreiningardeildar Alvotech og segir viðskiptamódelið ekki ósvipað þróun og framleiðslu samheitalyfja. „Líftæknilyf eru afskaplega dýr og okkar markmið að bjóða upp á hliðstæður með sömu virkni en á hagstæðara verði, svo að auka megi aðgengi sjúklinga að þessum lyfjum. Sá munur er þó á þróun líftæknilyfjahliðstæða og samheitalyfja að líftæknilyf eru mun flóknari og gerðar ríkari kröfur um mælingar og rannsóknir áður en setja má lyfið á markað,“ útskýrir hún. „Þá hafa líftæknilyf einnig sýnt fram á góðan árangur í meðferðum við ýmsum alvarlegum sjúkdómum þar sem þau styrkja ónæmiskerfi líkamans og hafa sértækari virkni en hefðbundin samheitalyf.“

Það var Róbert Wessman sem stofnaði Alvotech árið 2013 og eru höfuðstöðvar fyrirtækisins á Íslandi í glæsilegu 13.000 fermetra hátæknisetri í Vatnsmýrinni. Starfsmenn fyrirtækisins eru nú um 500 talsins og fara rannsóknir og þróun fram á Íslandi, í Þýskalandi, Sviss og Bandaríkjunum, og verið að setja upp framleiðslueiningu í Kína. Meira en 80% starfsmanna Alvotech eru með háskólapróf og fyrirtækið hefur laðað til sín vísindamenn og sérfræðinga frá meira en 45 löndum.

Snjóboltaáhrif

En af hverju að staðsetja Alvotech á Íslandi? Væri ekki auðveldara að manna lausar stöður eða draga úr ýmsum kostnaði með því að færa starfsemina annað? Sesselja segir margt hjálpa til að gera Ísland að fýsilegum kosti: einkaleyfaumhverfið sé hagstætt og lega landsins sömuleiðis, mitt á milli tveggja verðmætustu lyfjamarkaða í heimi; Evrópu og Bandaríkjanna. Stærsta kostinn segir hún hins vegar vera þann mannauð sem Ísland býr yfir: „Á Íslandi er menntunarstigið hátt og þökk sé þeirri uppbygginu sem hefur átt sér stað í lyfjaiðnaði á landið allmarga reynslubolta sem eiga vel heima hjá fyrirtæki eins og okkar. Vinnustaðurinn er jafnframt aðlaðandi fyrir nýútskrifað vísindamenntað fólk, sem og Íslendinga sem hafa menntað sig erlendis,“ útskýrir Sesselja og bætir við að hvert skref styðji við það næsta: „Árið 2018 gerðu Alvotech og HÍ samstarfssamning, sem svo varð grunnurinn að nýrri námsleið í iðnaðarlíftækni. Þar gefst okkur tækfæri til að mennta næstu kynslóð starfsmanna og HÍ nýtur góðs af þökk sé t.d. þeim tuttugu sérfræðingum Alvotech sem taka þátt í kennslu við háskólann.“

Fjöskylduvænt og áhugavert land

Landið sjálft, með öllum sínum gæðum, hjálpar líka til að laða að eftirsótta starfskrafta sem sumir ferðast yfir hálfan hnöttinn til að leggja Alvotech lið. Nefnir Sesselja sem dæmi að um 40 Indverjar starfi hjá Alvotech í Reykjavík og séu upp til hópa mjög ánægðir með að hafa sest hér að. „Hingað koma þau með fjölskyldur sínar og gengur vel að samlagast samfélaginu. Þótt Ísland og Indland gætu varla verið ólíkari staðir þá finnst þeim frábært að vera hér, eru dugleg að ferðast um landið og hafa á orði hvað maturinn er góður, loftið hreint og aðbúnaður fjölskyldufólks ágætur. Einn þeirra nefndi það sérstaklega við mig að ég ætti helst að halda því leyndu hvað Reykjavík væri mikil paradís því annars væri hætta á að við fengjum yfir okkur holskeflu af áhugasömum umsækjendum,“ segir Sesselja. „En það er einmitt það sem við viljum gera: laða til okkar hæfa sérfræðinga hvaðanæva úr heiminum.“

Hugarfarið leysir krafta úr læðingi

Sesselja fer létt með að telja upp ótal kosti við það að reka nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi, og eins nokkra galla – suma smáa og aðra stóra. Eitt atriði stendur þó upp úr sem virðist leitun að hjá öðrum þjóðum, og það er sjálft hugarfarið. Þykir Sesselju mikill styrkur fólginn í því hvað landsmenn eru athafnaglaðir: „Það er ríkt í Íslendingum – og smitar út frá sér – að við látum hlutina gerast og erum ekki að flækja þá of mikið fyrir okkur.“

Sesselja bendir á að það sé vel þekkt í fræðunum að frumkvöðlaeðlið sé ríkt í Íslendingum, og að vissulega þurfi stundum að tempra ævintýra- og áhættusæknina hjá fólki með sterka jarðtengingu: „En þetta hugarfar leysir krafta úr læðingi, og þýðir að allir eru samstiga í því verkefni að vilja klára það sem við ætlum okkur. Grunar mig að það séu afskaplega fáir í Alvotech-teyminu sem mæta í vinnuna bara til þess eins að vera þar frá 9 til 5, og þvert á móti sýnir fólkið sem hér starfar mikinn metnað og er sveigjanlegt þegar upp koma álagstímabil, reiðubúið að sökkva sér ofan í vinnuna. Allir hafa það sameiginlega markmið að auka lífsgæði fólks um allan heim með nýjum líftæknilyfjum og leggja sitt af mörkum til að koma Alvotech í fremstu röð á sínu sviði.“

Greinin birtist upphaflega þann 1. október s.l. í sérblaði Morgunblaðsins og Samtaka iðnaðarins um Iðnþing 2020.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK