Á nýbirtum lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki 2020 eru 842 fyrirtæki. Fækkar þeim um 5% frá fyrra ári þegar þau voru 887 talsins.
https://www.mbl.is/vidskipti/ff2020/greinar/2020/10/22/urvalsdeildin_i_rekstri/
Í sérriti sem fylgdi Morgunblaðinu í gær var fjallað á myndrænan hátt um fjölda framúrskarandi fyrirtækja í hlutfalli við heildarfjölda ársreikninga á Íslandi. Ná tölurnar aftur til ársins 2009 en það ár birti Creditinfo í fyrsta sinn lista yfir þau fyrirtæki sem uppfylltu skilyrði um að teljast framúrskarandi.
Athygli vekur að þótt fyrirtækjunum fækki á listanum frá fyrra ári helst fyrrnefnt hlutfall hið sama og árið 2019 eða 2,5%. Hefur það hlutfall haldist óbreytt frá 2017. Aðeins einu sinni hefur það reynst hærra en það var árið 2016 og var þá 2,6%.
Líkt og meðfylgjandi graf sýnir hækkaði hlutfall framúrskarandi fyrirtækja af heildarfjölda fyrirtækja í landinu stanslaust frá 2010 til ársins 2014. Stóð hlutfallið þá í 2,3% en lækkaði árið 2015 í 2,0%.
Á sömu mynd má sjá að frá árinu 2009 til ársins 2018 hefur heildarfjöldi ársreikninga aukist á hverju ári. Í fyrra var slegið met í þeim efnum þegar u.þ.b. 36.100 reikningum var skilað inn. Nú í ár (vegna rekstrarársins 2019) reyndust þeir hisn vegar u.þ.b. 33.800.
Heildarlistann yfir framúrskarandi fyrirtæki Creditinfo 2020 má finna hér.