Tíðindi að Bjarni segi næga orku til

Tryggvi Felixson formaður Landverndar.
Tryggvi Felixson formaður Landverndar. Ljósmynd/Landvernd

Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, segir að samtal ViðskiptaMoggans við Bjarna Bjarnason, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að engin þörf væri á að virkja frekar í landinu þar sem staðan væri þannig í dag að 7,5% af allri orku í landinu væru laus, sætti miklum tíðindum.

„Að mínu mati var þetta tímamótaviðtal. Tímamótin felast í því að þarna talar forstjóri eins stærsta orkufyrirtækis landsins og segir að með núverandi virkjunum í landinu getum við framkvæmt áform um orkuskipti, þ.e. útskiptingu jarðefnaeldsneytis fyrir endurnýjanlega orku, án þess að virkja meira. Að við getum nýtt það sem við höfum. Þetta hef ég ekki heyrt áður úr orkugeiranum, þó að þetta sjónarmið hafi heyrst hjá okkur og öðrum náttúruverndarsamtökum,“ segir Tryggvi.

Klárist fyrir 2035

Tryggvi segir að breytingar virðist vera í farvatninu. „Við erum nú þegar búin að virkja það sem við þurfum til að lifa góðu lífi hér á landi, og meira að segja til að klára orkuskiptin, sem yfirvöld stefna að því að klára fyrir árið 2050.“

Tryggvi segir Landvernd telja að orkuskiptin gætu klárast fyrr, eða árið 2035, eins og loftslagshópur Landverndar hefur lagt til. Landvernd vinnur nú að sögn Tryggva að greiningu á hvernig megi ná því markmiði með markvissum aðgerðum á næstu 15 árum. Tryggvi segir að með því að leggjast í eigin greiningar á málum sem þessum vilji Landvernd leggja eitthvað uppbyggilegt til málanna, eins og hann orðar það. Það sé hluti af tilgangi félagsins að benda á leiðir til lausna. „Það er einfalt að leggja fram kröfur og hugmyndir um breytingar, en stundum viljum við taka eitt skref til viðbótar og leggja til viðbótar þekkingu. Með þessu getum við undirbyggt betur hugmyndir okkar um að Ísland verði laust við jarðefnaeldsneyti miklu fyrr en núverandi áætlanir gera ráð fyrir.“

Tækniþróun spilar rullu

Tryggvi segir að tækniþróun úti í heimi spili stóra rullu í því hvernig gangi að ná þessum markmiðum, til dæmis varðandi orkuskipti hjá skipa- og flugvélaflota heimsins.

„Ef við lítum til baka og sjáum hvað mikið hefur breyst á síðustu 10-15 árum í rafbílunum getum við leyft okkur að vera vongóð um að eitthvað stórt geti gerst á öðrum sviðum líka. En við vitum líka að það gerist ekki nema settur verði verulegur kraftur í málið, og fjárhagslegir hvatar komi til.“

Er kominn betri hljómgrunnur fyrir málflutningi Landverndar í seinni tíð?

Hálendi Íslands.
Hálendi Íslands. Rax / Ragnar Axelsson

„Við finnum fyrir meiri skilningi hjá ungu fólki og konum, en þessi hópur hefur vaxandi áhyggjur og umhyggju fyrir umhverfinu. Eldri karlar eru ekki eins skilningsríkir, samkvæmt þeim könnunum sem við gerum. Þeir eru vanari stórkarlalegri umgengni um landið, og eru fastari í fortíðinni. En þetta snýst oft um hagsmuni, og margir telja sig einfaldlega vera að verja sín lífskjör.“

Þar á Tryggvi meðal annars við sjónarmið úr stétt bænda og útgerðarmanna, en margir í þeim hópum vilji fara mjög hægt í allar breytingar. „Því er gott að félagasamtök eins og okkar séu til sem eru ekki tengd hagsmunasamtökum í atvinnulífinu. Félagsmenn okkar og stuðningsaðilar ætlast til að okkar rödd sé áberandi og að við berjumst fyrir vernd náttúru með langtímasjónarmið að leiðarljósi.“

Þrátt fyrir orð Bjarna sem vitnað var til hér að ofan, þá eru nú að sögn Tryggva 34 vindorkuverkefni á teikniborðinu, og ótal smávirkjanir víða um land. „Okkur varð brugðið þegar við komumst að því hve mörg vindorkuverkefni voru í bígerð. Þessar virkjanir gætu framleitt orku á við fjórar Kárahnúkavirkjanir.“

Landvernd hefur brugðist við þessari þróun með útgáfu leiðbeininga um mat á áhrifum vindorku og vill að ekki verði farið í að reisa vindorkuver nema þau falli undir rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Tryggvi segir nauðsynlegt að ekki verði byggt nema þörf sé fyrir orkuna. Í dag sé sú þörf engin, og ekki fyrirsjánleg.

Náttúran borgað brúsann

Hann bætir við að undanfarin ár og áratugi hafi Íslendingar selt ódýra orku, en náttúran hafi þurft að borga brúsann. Engin umhverfisgjöld hafi verið lögð á orkuverin. „Samkvæmt grunnreglum um hverfisverð á framleiðandinn að borga bæði innri og ytri kostnað, en hingað til hefur hann aðeins borgað innri kostnaðinn. Í skýrslu efnahags- og samvinnustofnunar Evrópu, OECD, segir um Ísland að stjórnvöld þurfi að beita umhverfisbótareglu þegar virkjað er. Þegar náttúru er spillt sé það kostnaður. Ef framleiðandinn borgar ekki neitt fyrir náttúruspjöllin sé verið að niðurgreiða orkuna með skemmdum á náttúrunni.“

Spurður hvort vænta megi einhverrar stefnubreytingar í virkjanamálum á næstu árum á Tryggvi ekki von á hröðum breytingum. Hann óttast að margir aðilar séu með sínum virkjanaáformum að búa í haginn fyrir vonarpening í framtíðinni. „Af þessum 34 vindorkuverum eru 18 í erlendri eigu. Þarna eru menn að búa í haginn, upp á að nýta sér auðlindina í framtíðinni. Þarna eru aðilar sem fyrst og fremst eru að ávaxta sitt pund. Ég óttast að of margir staðir verði teknir frá til að virkja á, og kynslóðir framtíðarinnar sitji uppi með skaðann.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK