Heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health hefur tryggt sér nýtt fjármagn að fjárhæð 20 milljónir dollara. Er fjármagninu ætlað að styðja við vöxt fyrirtækisins í Evrópu og Bandaríkjunum.
Sidekick þróar heilbrigðismeðferðir til að bæta heilsu fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma. Þannig er meðferð þess miðlað í gegnum fjarheilbrigðiskerfi fyrirtækisins sem er skráð sem CE-merkt lækningatæki. Sidekick á í samstarfi við alþjóðleg lyfjafyrirtæki sem miðar að því að samþætta lyfjameðferðir. Þá vinnur fyrirtækið einnig með veitendum sjúkratrygginga.
Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri fyrirtækisins, segir það stóran áfanga fyrir fyrirtækið að fá erlenda fjárfestingasjóði að Sidekick Health sem hafi sérþekkingu á því sviði sem fyrirtækið starfar á.
„Þetta er enn ein staðfestingin á því að þessi nálgun - að nýta tæknina til að miðla gagnreyndri heilbrigðismeðferð - er óðum að verða órjúfanlegur hluti af nútímaheilbrigðiskerfi,“ segir Tryggvi í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Meðal núverandi hluthafa Sidekick Health eru Novator og Frumtak Ventures og tóku þeir einnig þátt í þessari fjármögnunarlotu fyrirtækisins. Fjármögnunin er hins vegar leidd af vísissjóðunum Wellington Partners og Asabys Partners. Fyrrnefndi sjóðurinn er einn sá stærsti sinnar tegundar í Evrópu með um milljarð evra í stýringu. Sá síðarnefndi sérhæfir sig í fjárfestingum í líftækni- og heilbrigðistæknifyrirtækjum.
Fjármagnið sem nú hefur safnast verður nýtt til að styðja við vöxt Sidekick sem verið hefur mikill á undanförnum misserum. Felst það m.a. í því að opna sölu- og markaðsskrifstofur í Evrópu og Bandaríkjunum. Er markmiðið að fjórfalda starfsmannafjölda fyrirtækisins á komandi misserum en í dag starfa um 30 manns hjá félaginu.