Eignir lífeyrissjóða lækkuðu milli mánaða

Eignir lífeyrissjóða lækkuðu um 1,2 milljarði milli mánaða. Það er …
Eignir lífeyrissjóða lækkuðu um 1,2 milljarði milli mánaða. Það er hins vegar aðeins 0,02% lækkun og hafa eignir þeirra hækkað um 10,5% á árinu. mbl.is/Þorsteinn

Eignir lífeyrissjóðanna lækkuðu um 1,2 milljarða í septembermánuði og námu 5.499 milljörðum. Er lækkunin smávægileg miðað við heildareignir sjóðanna, eða um 0,02%. Eignir sjóðanna hafa hins vegar hækkað um 522 milljarða það sem af er ári, eða um 10,5%. Þetta kemur fram í tölum Seðlabankans sem birtar voru í dag.

Eignir samtryggingadeilda voru 4.923 milljarðar og séreignadeilda 575,9 milljarðar.

Innlendar eignir námu í lok september 3.666 milljörðum, en þar af voru innlán hjá innlendum innlánsstofnunum 201 milljarður og innlend útlán 541 milljarður. Eign lífeyrissjóða á innlendum markaðsskuldabréfum nam 2.082 milljörðum og í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum 819,5 milljörðum.

Hækkuðu innlendar eignir um 17 milljarða í september, en á árinu hafa innlendar eignir hækkað um 188 milljarða. Nemur það 5,4% hækkun. Hafa innlend hlutabréf og hlutdeildarskírteini hækkað um 2,6 milljarða í september, en um 25 milljarða frá áramótum.

Erlendar eignir lífeyrissjóða námu 1.833  milljörðum í lok september. Þar af voru 1.804 milljarðar í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 19,9 milljarðar í innlánum í erlendum innlánsstofnunum og 9,1 milljarður í erlendum markaðsskuldabréfum. Hrein eign lífeyrissjóða nam 5.481,8 milljörðum, en aðrar skuldir námu 17,2 milljörðum.

Lækkuðu erlendar eignir um 18 milljarða milli mánaða, en þegar horft er á árið í heild hafa þær hækkað um 334 milljarða, eða 22,3%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK