Yfirtökutilboð Samherja 13,5 krónum undir genginu í gær

Samherji er með yfir 30% hlut í Eimskipafélaginu.
Samherji er með yfir 30% hlut í Eimskipafélaginu. mbl.is/Sigurður Bogi

Samherji birti í morgun auglýsingu þar sem greint er frá yfirtökutilboði félagsins til hluthafa Eimskipafélags Íslands. Er tilboðið 13,5 krónum lægra á hvern hlut en sem nemur dagslokagengi félagsins í gær.

Í síðasta mánuði bætti Samherji við sig 0,29 prósenta hlut og var þar með kominn með 30,28% af atkvæðum í félaginu. Virkjaðist þar með yfirtökuskylda.

Í auglýsingu Samherja kemur fram að tilboðsverðið sé 175 krónur á hlut, en það er sama verð og Samherji greiddi fyrir 0,29% hlutinn í október og jafnframt hæsta verð sem Samherji hefur keypt fyrir í Eimskipafélaginu á síðustu sex mánuðum. Markaðsgengi Eimskipafélagsins í dagslok í gær var hins vegar 188,5 krónur og er tilboð Samherja því 13,5 krónum undir því.

Markaðsverð Eimskipafélagsins tók kipp upp á við um miðjan október, eftir að hafa verið um eða undir 140 krónur á hlut frá því í apríl, eftir að áhrif kórónuveirufaraldursins komu fram, og hækkuðu nokkuð skarpt. Það var svo 21. október sem Samherji bætti við sig og fór yfir 30% yfirtökuskylduna. Við dagslok var gengi Eimskipafélagsins 182 krónur á hlut og hefur síðan haldist í eða yfir 180 krónum á hlut.

Samherji hefur gert yfirtökutilboð í Eimskipafélagið.
Samherji hefur gert yfirtökutilboð í Eimskipafélagið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gildistími yfirtökutilboðsins er frá klukkan 9:00 10. nóvember og til 17:00 8. desember.

Fram kemur í auglýsingu Samherja að félagið telji Eimskip áfram vel til þess fallið að vera áfram skráð á almennan hlutabréfamarkað og að stjórnendur Samherja bindi vonir við að eiga gott samstarf við aðra hluthafa Eimskip, en lífeyrissjóðir eru meirihlutaeigendur Eimskipafélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK