Heildarfjöldi farþega í millilandaflugi hjá Icelandair var um 7.500 í október og dróst saman um 98% á milli ára. Um 3.000 farþegar flugu til Íslands en um 4.300 farþegar frá Íslandi.
Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir októbermánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag, að því er segir í tilkynningu.
Farþegaflug Icelandair var í lágmarki í október, líkt og í september, en þær ferðatakmarkanir sem tóku gildi á landamærum á Íslandi í ágúst hafa haft mikil áhrif á spurn eftir flugi til og frá Íslandi. Aftur á móti hafa fraktflutningar félagsins dregist mun minna saman.
Farþegafjöldi í tengiflugi milli Evrópu og Norður-Ameríku var áfram í algjöru lágmarki vegna ferðatakmarkana í Norður-Ameríku og á ytri landamærum Schengen-svæðisins. Heildarframboð hjá Icelandair minnkaði um 96% á milli ára. Fjöldi farþega hjá Air Iceland Connect var um 6.700 í október og fækkaði um 72% á milli ára. Framboð í innanlandsflugi minnkaði um 62% á milli ára.
Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust saman um 74% á milli ára í október en þeir hafa dregist saman um 49% á milli ára það sem af er ári. Flutningastarfsemi félagsins hefur þó líkt og síðustu mánuði dregist mun minna saman en farþegaflug. Fraktflutningar í október drógust saman um 15% á milli ára og hafa dregist saman um 16% það sem af er ári, segir í tilkynningunni.
„Aðstæður til farþegaflugs hafa verið óbreyttar síðan ferðatakmarkanir voru hertar á landamærum á Íslandi seinnipartinn í ágúst. Síðan þá hefur eftirspurn eftir flugi til og frá Íslandi nánast alveg dregist saman,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningunni.
„Við leggjum ríka áherslu á að koma þeim sem vilja, eða þurfa að ferðast, á áfangastað þrátt fyrir takmarkaða flugáætlun. Þá höfum við unnið markvisst að því að viðhalda mikilvægum innviðum og þeim sveigjanleika sem þarf til að vera tilbúin að bregðast hratt við þegar eftirspurn eftir farþegaflugi eykst á ný,“ segir hann.