Norska ríkið hefur ákveðið að ekki verði af frekari stuðningi við lággjaldaflugfélagið Norwegian Air Shuttle. Jacob Schram, forstjóri félagsins, hefur brugðist ókvæða við ákvörðuninni og segir hana „með öllu óskiljanlega“. Hefur félagið kallað eftir beinum fjárstuðningi ríkisins sem nemur milljörðum norskra króna til viðbótar þeim stuðningi sem nú þegar hefur verið veittur.
Í yfirlýsingu frá viðskipta- og iðnaðarráðuneyti Noregs sem gerð var opinber í morgun segir að ríkissjóður landsins muni ekki leggja Norwegian til frekara fjármagn né heldur leggja fjármagn til uppbyggingar nýs flugfélags.
Vísar stjórnin þar til fyrirtækis sem Erik G. Braathen hefur haft á prjónunum að undanförnu. Hann er fyrrum hluthafi og stjórnarmaður í Norwegian.
Bendir stjórnin á að frá því kórónuveiran setti flugsamgöngur víða um heim úr skorðum hafi stjórnvöld í Noregi gripið til ýmissa aðgerða til þess að styðja við flugsamgöngur inn og út úr Noregi.
„Hefur stjórnin átt í nánu samráði við atvinnugreinina og hefur ásamt Stórþinginu gripið til ýmissa aðgerða til þess að bregðast við stöðunni sem upp er komin, með niðurfellingu ýmissa gjalda, kaupum ríkisins á ákveðnum flugleiðum til að tryggja lágmarksframboð, auknum stuðningi við leiðir sem hingað til hafa verið styrktar, stuðningi við flugvelli sem ekki eru í ríkiseigu auk trygginga sem veittar hafa verið fyrir allt að 6 milljarða norskra króna.“
Segir í yfirlýsingu ráðuneytisins að hinn sértæki stuðningur stjórnvalda vegna aðstæðnanna sem uppi eru nemi það sem af er árinu 2020 um 14 milljörðum norskra króna, jafnvirði 212 milljarða króna.
Í yfirlýsingu frá Norwegian, sem birt var á heimasíðu félagsins í kjölfar tilkynningarinnar frá ráðuneytinu, segir að flugfélagið hafi gert stjórnvöldum grein fyrir því að frekari stuðningur við félagið væri nauðsynlegur, ef halda ætti úti flugstarfsemi meðan á faraldrinum stendur.
„Fyrirtækið stendur nú frammi fyrir mjög óvissri framtíð, en við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að komast í gegnum þetta áfall og halda áfram að gera það sem Norwegian hefur gert í nærri tuttugu ár: að tryggja samkeppni og bjóða upp á fargjöld sem er á allra færi að njóta.“
Bendir félagið auk þess á að starfsmenn þess í Noregi séu 2.300 talsins og nokkur þúsund starfsmenn séu einnig staðsettir í öðrum ríkjum.