Nú hefur verið hafin bygging á lúxushóteli nærri Grenivík í Eyjafirði. Um er að ræða um 5.500 fermetra byggingu með 40 herbergjum, þar af fjórum svítum, ásamt bar, veitingastað, heilsurækt og funda- og ráðstefnusal. Hótelið hefur fengið heitið Höfði Lodge.
Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, eigendur Viking Heliskiing og Scandic Guides, standa að baki uppbyggingunni í samvinnu við erlenda fjárfesta. Sérstök áhersla verður lögð á afþreyingarferðamennsku, þar á meðal þyrluskíðun, fjallaferðir og hjólaferðir svo fátt eitt sé nefnt.
Að sögn Jóhanns hefur verkefnið verið í pípunum í nær fimm ár. „Þetta hefur verið í pípunum í fjögur til fimm ár. Við höfum verið að klára að fá landið fyrir skíði, veiði og fleira. Þetta verður svona „high luxury“-starfsemi,“ segir Jóhann og bætir við að gríðarleg tækifæri séu í íslenskri ferðaþjónustu.
Þá hafi heimsfaraldur kórónuveiru engin áhrif á áætlanir forsvarsmanna Höfða Lodge enda er ekki stefnt að opnun fyrr en árið 2022. Þannig gera þeir ráð fyrir að faraldurinn verði að mestu gleymdur þá. „Við teljum að hann verði búinn þarna. Við erum með 25 til 30 ára plan og teljum að til lengra tíma litið séu gríðarleg tækifæri.“
Ljóst er að umrædd fjárfesting er gríðarlega frek. Spurður um kostnað verkefnisins segir Jóhann að allar slíkar áætlanir séu trúnaðarmál. „Kostnaðaráætlun er ennþá bara trúnaðarmál, en þetta er gríðarleg fjárfesting í Eyjafirði,“ segir Jóhann og bætir við að fjölmörg störf muni skapast.
„Bæði bein störf og afleidd. Við reiknum sjálfir með að vera með um 40 til 50 starfsmenn. Við vonum að með þessari uppbyggingu verði meira alþjóðaflug farið um Akureyrarflugvöll.“