Albert Bourla, framkvæmdastjóri bandaríska lyfjarisans Pfizer fékk hvalreka í vikunni, þar sem hækkun hlutabréfa Pfizer varð til þess að Bourla varð sjálfur að selja hluta af þeim bréfum sem hann átti í félaginu. Voru bréfin samtals um 5,6 milljón dollara virði, eða sem nemur um 775 milljónum íslenskra króna.
Í frétt Financial Times um málið kemur fram að hlutabréf í Pfizer hafi stokkið um allt að 15% á mánudaginn eftir að þær fregnir bárust að bóluefnið sem félagið hafði þróað ásamt þýska líftæknifyrirtækinu BioNTech væri með rúmlega 90% virkni gegn kórónuveirunni. Tíðindin urðu til þess að markaðir bæði austan hafs og vestan fóru á flug.
Seldi Bourla, sem stýrt hefur Pfizer frá upphafi árins 2019, 132.508 hluti í sinni eigu samkvæmt skýrslu sem félagið skilaði til bandaríska fjármálaeftirlitsins, en í tilkynningu Pfizer kom fram að salan væri í samræmi við svokallaða 10b5-áætlun sem samþykkt var í ágúst síðastliðnum, en slíkar áætlanir veita stjórnarmönnum og öðrum innherjum fyrirfram ákveðinn tíma til þess að selja hlutabréf í sinni eigu til þess að koma í veg fyrir ásakanir um að þeir hafi notað innherjaupplýsingar til að auðgast persónulega. Salan hefði þó ekki farið fram, hefði hlutabréfaverðið ekki ná ákveðnu lágmarki sem samið var um fyrirfram.
Bourla á enn hluti í félaginu, og segir í tilkynningu Pfizer að þeir séu nú metnir á um níföld laun hans.