Bandarísk flugmálayfirvöld hafa gefið að nýju út flughæfnisvottorð gagnvart Boeing 737-MAX-flugvélunum sem kyrrsettar voru um heim allan í mars í fyrra í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa í Jövuhafi og Eþíópíu sem kostuðu samanlagt 346 manns lífið.
Ákvörðun yfirvalda vestra gefur flugvélaframleiðandanum Boeing tækifæri til þess að undirbúa endurkomu vélanna á markað en þær höfðu aðeins verið í þjónustu flugfélaga frá því í maímánuði 2017. Var vélin strax mjög eftirsótt meðal flugfélaga víða um heim og á tveimur árum höfðu borist tæplega 5.000 pantanir í vélar af þessu tagi. Frá því kyrrsetningin tók að dragast á langinn hafa fjölmörg flugfélög fallið frá kaupum á vélum og er Icelandair Group í þeim hópi en félagið stefnir þó á að vera með tólf vélar af þessari gerð í flota sínum á komandi árum.
Ekki liggur fyrir á þessum tímapunkti hvenær önnur flugmálayfirvöld muni gefa út flughæfnisvottorð fyrir vélarnar. Samkvæmt flugvefnum simpleflying.com er þó talið sennilegt að Kanada muni fljótlega fylgja í kjölfar Bandaríkjanna.
Fréttin verður uppfærð.