Play fær úthlutuð lendingarleyfi

Forsvarsmenn Play vinna enn hörðum höndum að því að koma …
Forsvarsmenn Play vinna enn hörðum höndum að því að koma félaginu í loftið. mbl.is/Hari

Flugfélaginu Play hefur verið úthlutað lendingarleyfum á tveimur flugvöllum í London og einum í Dublin. Sveinn Ingi Steinþórsson, fjármálastjóri félagsins, staðfestir að þarna sé um flugvellina London Stansted og Gatwick að ræða, auk alþjóðaflugvallarins í Dublin á Írlandi.

Áætlanir félagsins nú byggjast á að fyrstu farþegar verði fluttir á vegum þess á öðrum ársfjórðungi næsta árs. Sveinn Ingi ítrekar þó að mikil óvissa sé í kortunum og að áætlanir breytist hratt sökum þess.

Ekki enn með flugrekstrarleyfi

Play er ekki komið með flugrekstrarleyfi og segir Sveinn að það komi ekki á óvart. Það hafi verið lán félagsins að vera ekki komið í loftið þegar kórónuveirufaraldurinn breiddist um heiminn.

„Við metum það svo að tækifærið hafi aldrei verið stærra en einmitt nú. Það eru að hlaðast upp skuldir hjá keppinautum okkar og vandamálin munu ekki hverfa af markaðnum. Það er stór spurning hversu langan tíma það mun taka þessi félög að vinna upp það mikla tap sem orðið hefur.“

Hann segir að sökum kórónuveirunnar standi Play í raun jafnfætis öðrum flugfélögum hvað varðar sókn inn á markaðinn.

„Það er enginn að panta flugmiða núna, hvorki hjá okkur né öðrum. Þegar markaðurinn opnast munum við því í raun standa jafnfætis öðrum félögum í þessu sambandi og það eru mjög góðar aðstæður fyrir okkur.“

Geta nýtt sér skamman fyrirvara

Hann viðurkennir að undirbúningstími frá því að farmiðasala hefst og fram að fyrsta flugi sé yfirleitt metinn sex mánuðir. Nú séu aðstæður hins vegar öðruvísi og félagið búi sig undir að hreyfa sig hratt þegar markaðurinn opnast.

„Innanborðs hjá okkur er mjög reynt fólk sem hefur tekist á við erfiðar krísur, m.a. að selja flugmiða með skömmum fyrirvara. Það er reynsla sem mun nýtast okkur mjög mikið á komandi mánuðum.“

Hann segir að félagið sé ekki búið að taka flugvél á leigu en að það sé í góðum farvegi.

„Ástandið núna veldur því að það er mjög auðvelt að útvega góðar vélar með skömmum fyrirvara. Við erum með samninga um leigu á vél og við munum byrja á einni vél. Upphafleg áætlun okkar var sú að byrja með sex vélar en aðstæður hafa gjörbreyst og þá nýtum við okkur þann sveigjanleika sem við höfum. Ef eftirspurnin eykst hratt getum við brugðist hratt við og fjölgað vélum.“

Arnar Már Magnússon er forstjóri Play.
Arnar Már Magnússon er forstjóri Play. mbl.is/Hari

Spurður út í hvort félagið hyggist fljúga á fleiri áfangastaði en London og Dublin svarar Sveinn Ingi því til að félagið sé búið að leggja inn umsóknir um lendingarleyfi á mun fleiri stöðum en hann vill ekki tiltaka sérstaklega hvaða áfangastaðir það eru.

Flugfélagið Play var kynnt til sögunnar á blaðamannafundi hinn 5. nóvember í fyrra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK