Íslendingar á meðal hæst launuðu þjóðanna

„Frá 2012 til 2019 hækkuðu laun hér á landi um …
„Frá 2012 til 2019 hækkuðu laun hér á landi um 79% mælt í evrum. Á sama tíma hækkuðu laun í Þýskalandi um 17% og lækkuðu í bæði Svíþjóð og Noregi, um 3% og 11%,“ segir í Hagsjánni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Laun á Íslandi hafa hækkað mikið gagnvart öðrum Evrópulöndum á síðustu árum, samkvæmt Hagsjá Landsbankans. Þannig hækkuðu laun á Íslandi, mæld í evrum, um 84,4% frá árinu 2008 til ársins 2019 á meðan þau hækkuðu að meðaltali um 28,7% innan ESB.

„Á árinu 2008 voru laun á Íslandi þau 15. hæstu á EES-svæðinu, mælt í evrum. Frá árinu 2016 hefur Ísland verið í 4.-5. sæti. Á árinu 2012 voru laun hér á landi mæld í evrum jafn há meðaltali ESB mælt í evrum. Í fyrra voru laun á Íslandi rúmlega 60% hærri,“ segir í Hagsjánni.

„Frá árinu 2007 til og með 2019 hækkaði launavísitalan hér á landi um 99,6%, eða um 6% á ári að jafnaði. Kaupmáttur jókst um 30% á þessu tímabili og er aukningin öll tilkomin frá og með árinu 2014 þar sem kaupmáttur lækkaði töluvert árin á undan í kjölfar hrunsins. Launavísitalan hækkaði minnst á tímabilinu um 3,9% á árinu 2009 og mest um 11,4% á árinu 2016.“

Í Hagsjánni er bent á að þar sem Ísland sé mjög lítið og opið hagkerfi með sjálfstæðan gjaldmiðil þá skipti gengi krónunnar miklu máli þegar Íslendingar bera sig saman við aðrar þjóðir, hvort sem um er að ræða verð á innfluttum vörum eða launakostnað.

„Á tímabilinu frá 2008 til 2019 lá gengi krónunnar gagnvart evru á bilinu 120-173 krónur. Meðaltalið var um 147 krónur, þannig að sveiflurnar hafa verið töluverðar á tímabilinu, allt að 20% í hvora átt fyrir sig,“ segir í Hagsjánni. 

„Frá 2008 til 2019 hækkuðu laun ríkja ESB að meðaltali um 28,7% mælt í evrum, eða að jafnaði um 2,1% á ári. Laun hér á landi hækkuðu á sama tíma um 84,4% mælt í evrum, eða um 5,2% að jafnaði á ári. Á árunum fram til 2012 voru laun mæld í evrum svipuð hér á landi og að meðaltali innan ESB en frá 2016 hafa laun hér verið vel yfir meðaltali.“

Á árunum 2008 og 2012 var Ísland í 15. og 16. sæti EES-ríkja hvað upphæð launa varðar en hún er mæld í evrum. Ísland kleif launastigann hratt en á árunum 2016-2019 var Ísland í 4.-5. sæti í þessum samanburði. Þá voru laun á Íslandi á árinu 2012 þau sömu og meðaltalið innan ESB, en á árinu 2019 voru þau rúmlega 60% hærri á Íslandi.

„Frá 2012 til 2019 hækkuðu laun hér á landi um 79% mælt í evrum. Á sama tíma hækkuðu laun í Þýskalandi um 17% og lækkuðu í bæði Svíþjóð og Noregi, um 3% og 11%. Gengi sænsku og norsku krónunnar skiptir máli fyrir þessa þróun, sérstaklega þá norsku. Það er því ljóst að þróunin hér á landi hvað laun varðar hefur verið mjög frábrugðin því sem verið hefur meðal þessara landa. Í því sambandi má auðvitað taka fram að þetta tímabil er nokkuð einstakt hér á landi hvað kaupmáttarþróun varðar,“ segir í Hagsjánni. 

„Þau lönd sem við berum okkur helst saman við eru jafnan með hvað hæst launastig innan EES. Á árinu 2019 var það einungis Lúxemborg sem komst í hóp þessara ríkja. Á árinu 2019 voru launin hæst í Noregi, þrátt fyrir að þau hafi staðið í stað í nokkur ár. Úr þessum ríkjahópi komu Danir næstir með 89% af launum Norðmanna og við Íslendingar þar á eftir með um 83% af launum Norðmanna. Þar á eftir kom nokkuð bil niður að Svíum sem voru með 72% af launum Norðmanna. Launin í Bretlandi voru einungis um 57% af launum Norðmanna.

Launastig hér á landi hefur augljóslega hækkað verulega á síðustu árum í samanburði við önnur Evrópuríki, mælt í sömu mynt. Þannig hefur kaupmáttur okkar gagnvart þessum ríkjum aukist mikið. Hin hliðin á þeim peningi er að kaupmáttur Evrópuríkja gagnvart okkur hefur minnkað sem að öllu jöfnu hefur áhrif á kaup Evrópubúa á vörum og þjónustu frá okkur, þar á meðal ferðaþjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK