Íslenska ferðatæknifyrirtækið Dohop hefur tryggt sér á annan milljarð íslenskra króna í fjármögnun frá Scottish Equity Partners (SEP), breskum fjárfestingasjóði sem sérhæfir sig í fjárfestingum í vaxandi tæknifyrirtækjum. Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Tækni Dohop gerir flugfélögum kleift að selja tengiflug með öðrum flugfélögum og leyfir þeim að fjölga þannig áfangastöðum og þjóna fleiri farþegum en ella. Þessi tækni nýtist vel flugfélögum sem vilja endurreisa rekstur sinn með lægri tilkostnaði og stærra leiðakerfi þegar flugferðir hefjast á ný eftir Covid-19,“ segir í tilkynningunni.
Dohop er fyrsta íslenska fyrirtækið sem sjóðurinn Scottish Equity Partners fjárfesta í en þó ekki fyrsta ferðafyrirtækið. Árið 2007 fjárfesti SEP í Skyscanner en hún er ein vinsælasta flugleitarvél í heimi. Skyscanner var seld árið 2016 til Trip.com á jafnvirði 210 milljarða íslenskra króna.
„Fjárfestingin frá SEP leyfir okkur að sækja enn framar í þróun á okkar tækni ásamt því að geta markaðssett hana af meiri krafti til fleiri flugfélaga og gert þeim kleift að tengjast þeim flugfélögum sem þau vilja. Á þremur árum höfum við fjölgað viðskiptavinum töluvert og viljum halda því áfram. Með stuðningi SEP getum við tengt saman stærstu flugfélög í heimi, flugvelli og aðra ferðaþjónustuaðila svo sem lestir og rútur sem fjölga valkostum farþega. Reynsla SEP af því að hjálpa tæknifyrirtækjum að stækka og bakgrunnur þeirra úr ferðageiranum er verðmætt veganesti fyrir okkur í frekar vexti félagsins”, er haft eftir Davíð
„Dohop hyggst nýta fjármagnið til þess að byggja upp og ráða fólk með tækniþekkingu á Íslandi þar sem höfuðstöðvar félagsins verða áfram. Félagið hyggst auka hraðann á vöruþróun sinni ásamt því að fjölga viðskiptavinum og halda áfram að þróast til þess að leysa vandamál fluggeirans á nýstárlegan hátt.“