„Hjartað okkar slær hérna“

Davíð Gunnarsson framkvæmdastjóri Dohop.
Davíð Gunnarsson framkvæmdastjóri Dohop. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á næstu tveimur árum sér íslenska tæknifyrirtækið Dohop fram á að ráða um 50 manns í kjölfar fjárfestingar upp á á annan milljarð sem tilkynnt var um á miðvikudaginn. Stór hluti þeirrar fjölgunar verður í starfsstöð félagsins hér á landi. Eftir að faraldurinn fór á kreik hrundu tekjur félagsins, en Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop, segir að nýja fjármögnunin tryggi rekstur jafnvel þótt fyrirtækið myndi búa við tekjuleysi langt inn í næsta ár.

Í dag starfa 45 hjá fyrirtækinu í átta löndum, en Dohop var stofnað fyrir 16 árum utan um samnefnda leitarvél sem smíðar tengiflug fyrir notendur. Fyrirtækið rekur enn leitarvélina, en hefur auk þess fært sig yfir í lausn sem aðstoðar flugfélög að smíða tengiflug við önnur flugfélög og geta þannig boðið upp á heildarbókun hjá einu og sama flugfélaginu.

Úr 120 milljónum í 0 krónur

Félagið var með um 120 milljónir í tekjur í janúar og stefndi á að vera með um 1,5 milljarð íslenskra króan í veltu á árinu. Það breyttist eftir að faraldurinn fór af stað. „Þetta fór í núll í apríl, en pikkaði svo reyndar aðeins upp, en núna eru bara örfáar bókanir á dag,“ segir Davíð og bætir við að tekjurnar séu núna aðeins 10-20 milljónir á mánuði.

„Staðan leit mjög illa út,“ segir Davíð og bætir við að félagið hafi ekki haft eiginfjárstöðu til að geta borið sjálft mismuninn af tekjufallinu yfir lengra tímabil. Stór hluti starfsmanna fór því á hlutabótaleiðina, en í ágúst var ákveðið að framlengja það ekki og fá starfsfólk til baka. Útskýrir Davíð það þannig að í hugbúnaðarfyrirtækjum séu flestir að vinna að framtíðartekjum með þróun búnaðar og því hafi þeir tekið þá ákvörðun að nauðsynlegt væri að halda áfram á þeirri vegferð að þróa hugbúnaðinn.

Breskur fjárfestingasjóður með reynslu af flugtæknigeiranum

Þeir komust svo í samband við breska fjárfestingasjóðinum Scottish Equity Partners (SEP), sem fjárfestu meðal annars í Skyscanner á árum áður og margfölduðu fjárfestingu sína þegar Skyscanner var selt árið 2016 á sem svarar 210 milljarða íslenskra króna. Skyscanner er einmitt sambærileg leitarvél og Dohop setti upphaflega í gagnið fyrir um 16 árum.

Dohop var stofnað fyrir 16 árum í kringum samnefnda flugleitarvél.
Dohop var stofnað fyrir 16 árum í kringum samnefnda flugleitarvél. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Davíð segir að þeir hafi bæði vitað af SEP þegar fjárfestingasjóðurinn fjárfesti í Skyscanner, en einnig hafi SEP verið í lauslegum viðræðum við Dohop um yfirtöku fyrir um 6 árum. Segir Davíð að forsvarsmenn SEP hafi sömu sýn á reksturinn og núverandi eigendur Dohop og þá sé ekki síður mikilvægt fyrir fyrirtækið að fá þekkingu og reynslu SEP frá flugtæknigeiranum inn til Dohop.

Þola nú nánast engar tekjur í marga mánuði

Með fjárfestingunni eignast SEP um 30% í fyrirtækinu að sögn Davíðs. Eftir hana segir Davíð að staðan sé orðin traust á ný og fyrirtækið geti siglt í gegnum faraldurinn. „Við erum í raun að horfa á að við þolum að vera með nánast engar tekjur í marga mánuði í viðbót og þó að uppgangurinn verði rólegur þegar faraldurinn fer að réna.“ Segir hann að það sé í raun bónus í plönum þeirra ef bóluefni komist í almenna dreifingu strax á næstu mánuðum og sala á flugferðum fari aftur af stað á fyrri hluta næsta árs.

Byrja rólega að fjölga starfsfólki, en bæta svo í

Á næstu 3-6 mánuðum segir Davíð að hugmyndin sé að fjölga um 5-10 starfsmenn, en að yfir tveggja ára tímabil, sem sé tímarammi fjárfestingarinnar, sé horft til þess að fjölga starfsmönnum um 50. „Við ákváðum í samráði við fjárfestana að byggja hugbúnaðarþróun upp að mestu hér, að hún verði á Íslandi,“ segir Davíð. Hins vegar verði sölufólk erlendis, enda viðskiptavinirnir og mögulegir nýir viðskiptavinir að mestu erlend flugfélög.

Spurður nánar út í þá ákvörðun að hafa hugbúnaðarþróunina hér segir Davíð að hér á landi sé bæði ákjósanlegt og hagkvæmt starfsumhverfi fyrir slíka starfsemi. „Laun hér eru sannarlega há, en miðað við mörg önnur svæði þar sem tæknifyrirtæki starfa eru þau ekkert svakaleg,“ segir hann. Bætir hann við að endurgreiðsla á þróunarstyrkjum fyrir nýsköpun hafi einnig hjálpað til. „En hjartað okkar slær hérna,“ segir hann um það sem hafi skipt aðalmáli.

Mesta áskorunin fyrir tæknifyrirtæki í vexti, eins og Dohop stefnir nú á, er að sögn Davíðs að ná í starfsfólk. Þannig sé mikil samkeppni um tölvunarfræðinga og annað starfsfólk sem komi að hugbúnaðarþróun eftir nokkrar fjárfestingar erlendra aðila að undanförnu í íslenskum tæknifyrirtækjum. Segir Davíð að reynsla SEP af því að stýra fyrirtækjum í miklum vexti muni hjálpa þeim mikið við þetta verkefni.

easyJet stærsti viðskiptavinurinn

Spurður nánar út í vöruna sem þeir bjóða upp á og eru að þróa segir Davíð að flestir kannist við hefðbundnar flugleitarvélar sem geti búið til flugáætlun frá einum stað til annars og fundið hagstæðustu eða fljótlegustu leiðina með millilendingum. Það sé kerfið sem Dohop hafi upphaflega þróað og finna megi á vefsíðu þeirra. Enn í dag stendur sú leitarvél undir um fimmtungi tekna félagsins að sögn Davíðs, en leitarvélin er sérstaklega ætluð viðskiptavinum á Íslandi til að finna flug frá Íslandi.

Meginfókusinn í þróun sé hins vegar á leitarvél sem notuð er af flugfélögum. Nefnir hann sem dæmi  easyJet, sem er jafnframt stærsti viðskiptavinur félagsins, en flugfélagið horfi mest megins til beins flugs milli tveggja staða. Með leitarvélinni geti flugfélagið hins vegar boðið viðskiptavinum sínum upp á að bóka flug áfram með öðrum flugfélögum sem eru í samstarfi við easyJet. Þetta eigi meðal annars við um flugfarþega sem ætli frá Bretlandi til Bandaríkjanna og kaupi flug með easyJet til Íslands, en fái svo seinni legginn með Icelandair, þó allt sé keypt í gegnum vefsíðu easyJet. Segir hann að það sé á þessum vettvangi sem fyrirtækið stefni á að vaxa á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK