Eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Elko gegn íslenska ríkinu, þar sem ríkinu var gert að endurgreiða Elko nær 19 milljónir króna í oftekin gjöld af eftirlitsskyldum raftækjum, svokölluð eftirlitsgjöld, vakna spurningar um hvort neytendur eigi kröfu á að fá endurgreitt frá þeim verslunum sem seldu þeim viðkomandi vörur.
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir í Morgunblaðinu í dag, þetta sé erfitt mál, og kannski sé ekki eftir miklu að slægjast. Gjaldið sé enda einungis 0,15%. Það safnist þó þegar saman komi. „En þetta hefur fordæmisgildi fyrir öll svona ólögleg gjöld, og væntanlega eiga önnur fyrirtæki rétt á sams konar endurgreiðslu,“ segir Breki.
Hann segir aðspurður að neytendur eigi að sjálfsögðu rétt á að fá féð greitt til baka, en þó sé alltaf spurning hvernig því verði best við komið. „Við gerum þá kröfu að fyrirtæki sem fá svona endurgreiðslur skili þessu á einhvern hátt til neytenda og þar treystum við á stjórnendur félaganna og virka samkeppni. Þarna er komið tækifæri, þótt upphæðin sé ekki há, að lækka verð örlítið,“ segir Breki.
Hann segir að eftirlitsgjaldið sé hluti af því gjaldafargani sem neytendur þurfi að reiða af hendi fyrir hitt og þetta, og sé hluti af ástæðunni fyrir því hve allt sé dýrt á Íslandi.