Þrátt fyrir að hart sé í ári hjá mörgum í kjölfar faraldurs kórónuveiru hafa ákveðin fyrirtæki hagnast verulega á ástandinu sem nú ríkir. Eitt þeirra fyrirtækja er verslunarrisinn Walmart, en sjaldan eða aldrei hefur verið eins mikið að gera hjá versluninni og nú.
Má rekja söluaukningu fyrirtækisins mikið til harðra sóttvarnaaðgerða víða um heim þar sem fólki hefur verið óheimilt að snæða á veitingahúsum eða ferðast út fyrir landsteinana. Allt hefur þetta ýtt undir aukna sölu fyrirtækisins.
Sökum góðs gengis hafa stjórnendur Walmart nú tekið ákvörðun um að veita starfsmönnum fyrirtækisins um 300 dala jólabónus, eða um 38 þúsund krónur. Þá fær hlutastarfsfólk 150 dali. Fjárhæðirnar verða greiddar út 24. desember, en þetta er í fjórða skipti sem fyrirtækið veitir starfsfólkinu bónus frá því í mars.
Alls starfa 165 þúsund starfsmenn hjá fyrirtækinu og því er ljóst að um talsverða upphæð er að ræða. Auk uppbótanna hafa starfsmenn á lágmarkslaunum verið hækkaðir úr 11 dölum í 15 dali á klukkustund. Vill fyrirtækið með þessu leggja sitt af mörkum til fólks sem starfað hefur við krefjandi aðstæður síðustu mánuði.
Sala verslunarrisans frá því að faraldurinn hófst hefur aukist um 6,4%. Þá hefur netsala rokið upp og er nú 79% meiri en á sama tíma í fyrra.