Lítil breyting hefur orðið í farþegaflugi á vegum Icelandair Group á milli mánaða og voru farþegatölur í nóvember sambærilegar því sem þær voru í október. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu til kauphallar.
Heildarfjöldi farþega í millilandaflugi hjá Icelandair var um 7.000 í nóvember og dróst saman um 97% á milli ára. Farþegafjöldi til og frá Íslandi skiptist nokkuð jafnt, um 3.400 farþegar á hvorri leið, en farþegafjöldi í tengiflugi milli Evrópu og Norður-Ameríku var áfram í algjöru lágmarki vegna ferðatakmarkana í Norður-Ameríku og á ytri landamærum Schengen-svæðisins.
Heildarsætaframboð hjá Icelandair minnkaði um 95% á milli ára. Fjöldi farþega hjá Air Iceland Connect var um 6.000 í október og fækkaði farþegum um 72% á milli ára. Framboð í innanlandsflugi dróst saman um 65% á milli ára.
Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust saman um 73% á milli ára í nóvember en hafa dregist saman um 51% á milli ára það sem af er ári. Flutningastarfsemi félagsins hefur þó líkt og síðustu mánuði dregist mun minna saman en farþegaflug. Fraktflutningar í nóvember drógust aðeins saman um 2% á milli ára.
Að sögn Boga Nils Bogasonar forstjóra Icelandair endurspegla tölurnar ferðatakmarkanir sem nú eru í gildi.
„Farþegatölur Icelandair í nóvember endurspegla þær ferðatakmarkanir sem kynntar voru í lok sumars og eru enn í gildi hér á landi. Við vorum vel undirbúin fyrir þær aðstæður sem nú ríkja og höfum lagt áherslu á að koma þeim sem þurfa og vilja ferðast á áfangastað þrátt fyrir lágmarksstarfsemi. Þá munum við gera okkar besta til að koma til móts við þá sem hyggjast ferðast yfir jól og áramót með því að bjóða fleiri áfangastaði og aukna tíðni í kringum hátíðirnar en við höfum getað boðið upp á að undanförnu.“