„Fólk farið að leita og láta sig dreyma“

Ferðamenn við Dettifoss.
Ferðamenn við Dettifoss. mbl.is/Sigurður Bogi

Ákvörðun Hertz að ráða aftur 66 starfsmenn er ákveðið merki um að það sjái í ljósið við enda ganganna, en þó er ólíklegt að mörg önnur fyrirtæki fari sömu leið og hefji stórfelldar endurráðningar alveg á næstunni. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is.

Í morgun var greint frá því í Morgunblaðinu að Hertz hefði endurráðið 66 starfsmenn, en fólkið missti vinnuna í september. Verða með þessu 74 starfandi hjá bílaleigunni, en þegar mest var voru þeir 140.

„Jákvæðnin hefur aðeins tekið við sér

Jóhannes segir að í ljósi nýjustu frétta af bóluefni, þar sem talið sé að bólusetningar í nágrannalöndum okkar hefjist fljótlega á næsta ári og jafnvel eitthvað á þessu ári, hafi aukinnar bjartsýni farið að gæta. Það megi meðal annars sjá af tölum á leitarvélum og bókunarsíðum. „Jákvæðnin hefur aðeins tekið við sér og fólk er farið að leita og láta sig dreyma,“ segir Jóhannes. Hann tekur þó fram að venjulega taki það töluverðan tíma frá því að fólk fari að skoða mögulega áfangastaði og þangað til það bóki ferðina.

Stór bókunartími er jafnan í janúar og febrúar og aðeins inn í mars. Áður en nýjustu fréttir af bóluefni fóru að berast gerðu spár ráð fyrir að ferðaþjónustan tæki hægt við sér í sumarbyrjun en færi svo eitthvað af stað á seinni hluta sumarsins. Vegna þessa má búast við styttri aðdraganda í bókunum almennt fyrir sumarið og ekki síður í að fyrstu bylgjur ferðamanna komi á ný. „Það eru líkur á meiri aðsókn strax frá lokum maí og byrjun júní, en áður en þessar fréttir fóru að berast,“ segir hann.

Jóhannes Þór Skúlason, framkæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki heyrt af bylgju endurráðninga

Spár höfðu gert ráð fyrir á bilinu 700 þúsund upp í eina milljón ferðamanna á þessu ári. Jóhannes segir ólíklegt að staðan núna muni verða til þess að sú tala hækki, en að hann telji líklegra að niðurstaðan verði við hærri mörkin.

Þrátt fyrir þessar jákvæðu fréttir segir Jóhannes ólíklegt að mörg fyrirtæki hefji miklar endurráðningar strax. „Menn eru að horfa á hvernig þessi styrkjamál lenda, upp á hvað fyrirtækin geta gert inn í veturinn. Það eru fá fyrirtæki að fara að endurráða starfsfólk án þess,“ segir hann og bætir við að hann hafi sjálfur ekki heyrt af því að bylgja endurráðninga sé framundan. „Það er ólíklegt að það gerist fyrr en nær dregur vori.“

Líklegt að lykilstarfsfólk verði ráðið fljótlega inn aftur

Jóhannes telur að aukin bjartsýni á markaðinum muni hafa þau áhrif að mörg fyrirtæki reyni að nýta styrkjaleiðir til að endurráða lykilstarfsfólk á næstunni til að undirbúa viðspyrnu og koma markaðsstarfi af stað. Nefnir hann í því samhengi fyrirtæki með tækjaflota sem þurfi að halda við eða endurnýja, fyrirtæki með mikla fasteignaumsjón eða fyrirtæki með mikla sölu- og markaðssetningu.

Hann dregur þó strax úr væntingum um að þetta verði mjög fjölmennar aðgerðir. „Við erum kannski að tala um 2-3 starfsmenn, eða 4-5 eftir því hvernig starfsemin er,“ segir Jóhannes og telur ólíklegt að stórfelldar endurráðningar hefjist fyrr en næsta vor.

Ekki enn tími á að „skjóta upp stóru rakettunum

„Þetta sýnir okkur að það er ákveðin von um að ljósið sé við enda ganganna, en ég minni á að þó að þetta taki við sér, þá er eftir að leysa úr miklum skuldavanda sem hefur byggst upp. Það tekur langan tíma og því eru ansi mörg ef enn í stöðunni,“ segir Jóhannes.

Spurður hvort hann telji að ríkið eigi að fara að keyra markaðsátakið, sem kynnt var í fyrsta aðgerðapakkanum, af stað fljótlega segir Jóhannes að átakið hafi verið í gangi að litlu leyti til að viðhalda sýnileika. Þá sé von á einhverju útspili á næstunni, en enn sé þó ekki kominn tími til að „skjóta upp stóru rakettunum“ heldur telur Jóhannes að það eigi að bíða til vorsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK