Með sameiningu vefja Procura og Second verður til stærsti gagnagrunnur um verðmat fasteigna á landinu öllu. Eigendur fasteignavefjanna hafa ákveðið að sameina krafta sína undir vörumerki Procura á léninu procura.is. Vefurinn er gjaldfrjáls.
„Við erum þess fullviss að samstarf okkar og tæknin sem við höfum yfir að ráða opni nýjar og einfaldari leiðir fyrir öll þau sem eru í fasteignahugleiðingum. Verðmats- og samanburðarupplýsingar okkar verða áfram gjaldfrjálsar og er stefna okkar að bæta enn frekar aðgengi fasteignaeigenda að gjaldfrjálsum upplýsingum sem ákvarðanir um kaup og sölu fasteigna eru byggðar á,“ segir í tilkynningu um málið.
Samhliða sameiningunni var ný og endurbætt vefsíða sett í loftið þar sem auk verðmats á u.þ.b. 130.000 fasteignum, er hægt er að bera saman greiðslubyrði húsnæðislána sem bjóðast á markaði í dag. Þar geta notendur einfaldlega flett upp eign sem þeir vilja skoða. Þá geta þeir séð núverandi verðmat, verðþróun síðustu 12 mánaða og jafnframt greiðslubyrði og vaxtakjör húsnæðislána sem í boði eru.
„Markmið með sameiningunni er að Procura verði árið 2021 þjónustan sem leitað er til þegar kemur að kaupum eða sölu á fasteign. Öll hönnun og framsetning tekur mið af því að langflestir nýta þjónustuna frá snjalltækjum og þegar er í þróun app og sérstök fasteignagátt sem verður kynnt eftir 4-6 vikur,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu og jafnframt:
„Gildi aukinnar netþjónustu hefur sannað gildi sitt á tímum COVID og bendir flest til að verulegar breytingar verði á allri þjónustu á komandi misserum, sem mun í auknum mæli færast á netið. Þar er fasteignasala ekki undanskilin og er Procura þegar í sambandi við löggilta fasteignasala sem eru opnir fyrir þessum breytingum. Að kaupa og selja fasteign er stórt skref fyrir flesta og í því ferli verður góður fasteignasali áfram ómissandi hluti, en ferlið sjálft á eftir að taka miklum breytingum. Með sameiningu Procura og Second verður til aðili sem er leiðandi í þessum þörfu umbreytingum á fasteignamarkaði.“