Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, segir ýmsa þætti skýra styrkingu krónunnar að undanförnu. Það hafi komið á óvart hversu mikið hún hafi styrkst en bankinn hafi spáð þrýstingi til veikingar, að því er fram kemur í umfjöllun um gengisþróunina í Morgunblaðinu í dag.
Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, segir gengisstyrkinguna undanfarið svo mikla að hún hafi áhrif á verðlag í gegnum verðlag innfluttra vara.
Gjarnan sé miðað við að innflutt vara vegi 30-40% í útreikningum á verðbólgu. Því geti styrkingin dregið úr verðbólgu en geti dreifst yfir tíma og sé m.a. háð því hvenær vörur komi til landsins eða séu teknar úr tollvörugeymslu.