Markaðsherferðin Let It Out sem keyrð var undir merkjum Inspired by Iceland síðastliðið sumar hefur verið tilnefnd til tvennra Digiday verðlauna. Tilnefningarnar eru í flokki almannatengsla annars vegar, og í flokknum besta auglýsingin hins vegar.
Bandaríski miðillinn Digiday verðlaunar árlega markaðsstarf fyrirtækja fyrir bæði hugmyndaauðgi og árangur og eru verðlaunin eftirsótt meðal fagfólks í markaðsgeiranum, að því er fram kemur í tilkynningu.
Myndbandið sem hvatti fólk til þátttöku í Let it Out herferðinni er tilnefnt í flokknum besta auglýsingin. Það voru M&C Saatchi og Peel auglýsingastofa sem unnu handrit og hugmyndavinnu að myndbandinu, en framleiðslufyrirtækið Skot sá um upptökur og framleiðslu.
Leikstjórn var í höndum þeirra Samúels Bjarka Péturssonar og Gunnars Páls Ólafssonar, en Úlfur Eldjárn samdi tónlistina.