„Við erum fyrstir til að innleiða þetta hér á landi enda er þetta algjörlega nýtt. Þetta er liður í því að auka sóttvarnir í húsinu og veita gestum okkur öryggi,“ segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, um nýjan búnað sem nú er að finna í verslunarmiðstöðinni.
Í Kringlunni má nú finna búnað NanoSeptic, en búnaðurinn er sjálfhreinsandi og minnkar líkur á snertismiti. Búnaðurinn virkar þannig í notkun að þunn filma er lögð ofan á hugsanlega snertifleti en með því drepast bakteríur, sem annars hefðu legið á umræddum flötum, samstundis.
Að sögn Sigurjóns er búið að koma búnaðinum fyrir á hurðum og lyftuhnöppum. „Við erum búin að líma þetta á ákveðna fleti, þar á meðal hurðar og lyftuhnappa þar sem fólk er að fara um. Þetta er búnaður sem sótthreinsar sig sjálfur,“ segir Sigurjón og bætir við að búnaðinn verði áfram að finna í verslunarmiðstöðinni næstu mánuði.
„Við munum halda þessu eitthvað áfram, sérstaklega í ljósi aðstæðna. Þetta er búnaður sem okkur barst frá Bandaríkjunum og hreingerningarfyrirtækið Hreint sér um hér á landi. Okkur fannst sniðugt að innleiða þetta enda getur mannshöndin ekki séð um alla hreinsun.“