Tekjur af virðisaukaskatti drógust saman um 37%

Áætlaðar tekjur af sköttum á vöru og þjónustu drógust saman.
Áætlaðar tekjur af sköttum á vöru og þjónustu drógust saman. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Afkoma hins opinbera er áætluð neikvæð um 68,6 milljarða króna, eða sem nemur 9,4% af vergri landsframleiðslu á þriðja fjórðungi þessa árs.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Hagstofunnar. Segir þar að faraldur kórónuveirunnar hafi haft umtalsverð áhrif á afkomu hins opinbera á árinu.

Efnahagsaðgerðir stjórnvalda, sem gripið var til vegna faraldursins, hafi haft mikil áhrif bæði á tekjuöflun hins opinbera og útgjöld þess.

„Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi dregist saman um 5% borið saman við 3. ársfjórðung 2019. Áætlað er að tekjur af sköttum á tekjur og hagnað hafi aukist um 3%. Áætlaðar tekjur af sköttum á vöru og þjónustu drógust saman um 21,5% á 3. ársfjórðungi og vegur þar þyngst samdráttur í innheimtum tekjum af virðisaukaskatti sem dróst saman um 37%,“ segir í tilkynningunni.

Félagslegar tilfærslur aukist

Áætlað er að tekjur af tryggingagjaldi hafi dregist saman um 6,2% á 3. ársfjórðungi sem skýrist m.a. af lækkun á tryggingagjaldi um 0,25 prósentustig.

Einnig er áætlað að heildarútgjöld hins opinbera hafi aukist um 13,4% á ársfjórðungnum frá sama tímabili í fyrra.

„Launakostnaður vegur þar þyngst en hann er áætlaður um 32% af heildarútgjöldum hins opinbera.“

Sömuleiðis er áætlað að félagslegar tilfærslur til heimila hafi aukist um 15% frá 3. ársfjórðungi 2019 og má þar rekja stærstan hluta aukinna útgjalda til atvinnuleysistryggingasjóðs.

Útgjöld sjóðsins vegna hlutabótaleiðarinnar námu um tveimur milljörðum króna, auk þess sem útgjöld vegna almennra atvinnuleysisbóta hækkuðu umtalsvert vegna aukins atvinnuleysis.

Greiðsla launa á uppsagnarfresti

Framleiðslustyrkir hins opinbera hækkuðu um tæp 134% frá 3. ársfjórðungi 2019 og er stærsti liðurinn þar greiðsla launa á uppsagnarfresti sem nam 9,4 milljörðum króna á tímabilinu.

Einnig kemur fram að við endurskoðun á geiraflokkun opinberra aðila í lok nóvember hafi 24 einingar, sem hingað til hafa verið flokkaðar utan hins opinbera, þ.e. A-hluta ríkissjóðs, A- hluta sveitarfélaga og almannatrygginga, færst yfir til hins opinbera.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK