„Einhvern veginn lendum við þarna inn í miðjunni“

Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant.
Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant.

Eftir eins og hálfs áratuga þróunar- og vaxtarsögu er starfsemi íslenska tæknifyrirtækisins Controlant að springa út þessi misserin og er nú í miðri hringiðu bóluefnadreifingar í heiminum. Fyrirtækið er náinn samstarfsaðili Pfizer lyfjaframleiðandans, en þegar er byrjað að bólusetja með Covid-19 bóluefni Pfizer og BioNTech í Bretlandi og Bandaríkjunum. Controlant sér meðal annars um hluta gæðaeftirlits með öllum sendingum og geymslu bóluefnisins í Bandaríkjunum og var lausn fyrirtækisins meðal annars sýnd á kynningarfundi um dreifingu bóluefnisins sem Hvíta húsið stóð fyrir nýlega.

mbl.is ræddi við Gísla Herjólfsson forstjóra félagsins sem lýsir uppganginum, tvöföldun í fjölda starfsmanna á einu ári og hvernig það kom til að íslenskt tæknifyrirtæki er allt í einu komið í þetta mikilvæga hlutverk á þessum sérstöku tímum.

Allt annað en upphaflega hugmyndin

Controlant þróar og framleiðir í dag hug- og vélbúnað sem mælir meðal annars raka, hitastig og staðsetningu og sendir frá sér rauntímaupplýsingar sem hægt er að fylgjast með til að tryggja gæði á viðkvæmum vörum. Á þetta til dæmis við um matvæli og lyf, en það er síðarnefndi flokkurinn sem er meginuppistaðan í viðskiptum félagsins í dag.

„Upphaflega viðskiptahugmyndin var annars eðlis en hún er í dag,“ segir Gísli spurður um upphafið fyrir um fimmtán árum. Þráðlausir skynjarar sem mæla umhverfisþætti hafa samt alltaf verið grundvallaratriðið, en til að byrja með horfði fyrirtækið meðal annars til mælinga á loftþrýstingi í dekkjum. Þegar tæknin fór að taka á sig betri mynd var farið að skoða hvar best væri að nýta lausnir sem þessar og segir Gísli að augun hafi meðal annars beinst að matvælaiðnaði.

Athyglin beindist fljótt að lyfjageiranum

Fljótlega hafi þó athyglin farið að beinast að lyfjageiranum þegar menn áttuðu sig á því hversu mikilvægt væri að geyma og flytja lyf við ákveðið hitastig. Það var svo í svínaflensufaraldrinum árið 2009 sem Controlant fékk fyrsta alvöru verkefnið í tengslum við lyfjageirann að sögn Gísla. Gerður var samningur við íslenska ríkið um að tækni fyrirtækisins væri notuð til að vakta öll bóluefni hér á landi. Enn í dag er fyrirtækið með samning við ríkið um vöktun á öllu bóluefni.

„Svo fórum við að fikra okkur áfram með tæknina. Úr því að vakta geymslu í að vakta flutninga,“ segir Gísli. Fyrst var um að ræða lyfjaflutninga hér heima, en á tveimur til þremur árum, það er árið 2012, var fyrirtækið farið að vakta svo gott sem öll lyf hér á landi með einum eða öðrum hætti. Náði það til flutninga og geymslu hjá innflutningsaðilum, vöktunar á sjúkrahúsum og fyrir flest apótek.

Gísli segir að fyrirtækið hafi á þessum tíma einnig verið að horfa í auknum mæli á ný á matvælaiðnaðinn, meðal annars að fylgjast með hitastigi á ferskum fiski sem seldur var úr landi upp á rekjanleika að gera. „Það kom þó í ljós að tæknin og þörfin hjá markaðinum var ekki að passa og við hurfum frá því verkefni,“ segir Gísli og bætir við: „Lyfin hafa alltaf verið sterkasti markaðurinn.“

Lausn Controlant var meðal annars sýnd á ítarlegum kynningarfundi Hvíta hússins um bólusetningar í síðustu viku, en sjá má fundinn í heild í spilaranum. Er meðal annars farið yfir það að búnaðurinn tryggi að hitastig bóluefnisins fari ekki upp fyrir -70°C. Kassinn sem bóluefninu er dreift í má sjá eftir um 1 klst og 25 mínútur, en hlutverk Controlant er kynnt eftir um 1 klst og 36 mínútur. 

Horft út fyrir landsteinana

Frá árinu 2013 til 2016 var Controlant alltaf að ná í fleiri og fleiri viðskiptavini utan landsteinanna, en Gísli segir að fyrirtækið hafi þá verið að skoða stærri heildsala á Norðurlöndunum og í Bretlandi.

„Þegar við fórum fyrst að láta að okkur kveða á þessum markaði þá var tæknin framandi [fyrir fyrirtæki í lyfjageiranum]. Menn voru ekki í neinum skýjalausnum og vissu ekkert hvað átti að gera við rauntímaupplýsingar,“ segir Gísli þegar hann lýsir þessum árum. Hins vegar hafi verið nokkur fyrirtæki sem hafi verið áhugasöm um að taka nýja tækni í sína þjónustu og verkefnið hafi verið að finna þessi fyrirtæki. Meðal annars hafi Controlant unnið með Teva, sem keypti íslenska lyfjafyrirtækið Actavis, og Allergan, en Actavis og Allergan unnu náið saman áður. Gísli segir að fyrirtækið hafi því komist með fótinn inn hjá þessum fyrirtækjum og eftir það fór boltinn að rúlla með umtali. „Þá fóru þessir aðilar að segja öðrum hvað þetta hjálpaði þeim.“

Björninn var þó ekki unninn og frá árinu 2016 segir Gísli að fyrirtækið hafi sett stífari fókus á 20 stærstu lyfjaframleiðendur heims. Lyfjageirinn er þó gríðarlega íhaldssamur geiri að sögn Gísla og ekki sé mikill vilji til að taka áhættu með litlu óþekktu fyrirtæki. Þau hafi því lagt mikla áherslu á að vera sýnileg á markaðinum í nokkur ár og var fyrirtækið duglegt að senda fólk á ráðstefnur og kynna vörur sínar þar.Þessi stífi fókus skilaði því að í dag er Controlant með samning við sex af stærstu lyfjaframleiðendum heims.

Í samkeppni við 30 ára gamla tækni

Spurður hvort þessi ár hafi ekki litast af mikilli samkeppni við önnur fyrirtæki með svipaðar lausnir segir Gísli að í raun hafi markaðurinn verið nokkuð mettur þegar Controlant fór af stað. Það var hins vegar með svipaðri lausn og hafði verið í boði í yfir 30 ár og var þar af eitt fyrirtæki með um helmings markaðshlutdeild. „Þegar við komum til sögunnar vorum við með allt aðra tækni og aðrar áherslur,“ segir hann og vísar til rauntímamælinganna, notkunar á skýja þjónustu sem og beinteningar við stjórnstöð allan sólarhringinn.

Til að varpa betra ljósi á hvernig það virkar segir Gísli að fyrirtækið sé nú með í notkun á annað hundrað þúsund skynjara víðs vegar um heiminn. Nefnir hann sem dæmi að stjórnstöðin fylgist í rauntíma með öllum þessum mælum og sé í beinu sambandi við lyfjageymslur eða flutningsaðila ef upp koma einhver óeðlileg gildi. Þannig sé í hægt að tryggja gæði vörunnar og í tilfelli lyfja gæta upp á virkni þeirra. Einnig lágmarki þetta kostnað og rýrnun lyfjafyrirtækja því hægt sé að bregðast við í tilfellum þegar eitthvað komi upp á.

Hjartað í lyfjaflutningi

„Við erum hjartað í öllum lyfjaflutningi hjá þessum lyfjafyrirtækjum,“ segir Gísli til að lýsa betur aðkomu Controlant að flutningunum. Varðandi Pfizer-BioNTech bóluefnið er Controlant að vakta allt frá hráefni sem kemur til framleiðslunnar til að passa upp á rekjanleika yfir í að vakta flutning á bóluefninu á heilsugæslur eða spítala og jafnvel með vöktun á bóluefni í flutningsboxi þangað til sjúklingurinn fær bóluefnið, ef ekki er til staðar varanleg geymsluaðstaða á þeim stað sem bólusett er. Segir Gísli að í tilfelli Pfizer bóluefnisins skipti vöktunin enn meira máli en venjulega, enda sé bóluefnið mjög viðkvæmt og að það þurfi að geyma í mjög miklu frosti.

Frá höfuðstöðvum Controlant í Holtasmára. Hjá fyrirtækinu starfa í dag …
Frá höfuðstöðvum Controlant í Holtasmára. Hjá fyrirtækinu starfa í dag um 130 starfsmenn og stefnt er að því að fjölga þeim upp í 200 fyrir lok næsta árs. Ljósmynd/Controlant

„Lærdómsferli í 10 ár að komast á þennan stað“

Þessar miklu kröfur um flutning bóluefnisins voru svo ástæðan fyrir því að lausn Controlant er notuð við vöktun á flutningi og geymslu bóluefnis Pfizer. „Það var lærdómsferli í 10 ár að komast á þennan stað,“ segir Gísli.

Það var þó ekki þannig að þegar kórónuveirufaraldurinn skall á í upphafi árs að stjórnendur Controlant hafi vitað að í hvaða stöðu þeir yrðu um 9 mánuðum síðar. Þannig hafi fyrirtækið fyrst haldið að faraldurinn myndi skera á aðfangakeðjur fyrirtækisins og tefja framleiðsluna. Um sumarið leit staðan hins vegar vel út, fyrirtækið var búið að landa samningum og sá fram á að rúlla út lausnum til nokkurra viðskiptavina.

„En svo kom Covid-beiðnin“

„En svo kom Covid-beiðnin,“ segir Gísli. Þetta var um mitt sumarið. „Þarna vorum við komin í hringamiðjuna fyrir bóluefnaflutninga fyrir Pfizer og mögulega fleiri,“ bætir hann við. „Þetta er langsamlega stærsta verkefni sem lyfjageirinn hefur tekist á við og einhvern veginn lendum við þarna inn í miðjunni.“

Segir Gísli að á sama tíma og hann og samstarfsfólk hans takist á við verkefnið af auðmýkt, þá taki þetta gríðarlega á. Þegar mbl.is náði tali af honum í vikunni sá hann meðal annars fram á að ljúka vinnudeginum um miðnætti og mæta aftur til vinnu um klukkan sex um morguninn. Lýsir Gísli annríkinu ágætlega fyrir blaðamanni með því að benda á að frá því að viðtalið hófst, um 15 mínútum áður, séu yfir 20 beiðnir komnar á rafrænt borð til hans.

Gæti stefnt í annasöm jól

Áður en markaðsleyfi var gefið út fyrir bóluefnið var Controlant þegar búið að koma að vöktun í undirbúningsflutningi, en eftir að dreifing hófst í Bandaríkjunum og Bretlandi var allt komið af stað. „Þetta byrjaði fyrir nokkrum vikum og er núna að vaxa dag frá degi og verður vaxandi út árið,“ segir Gísli. Telur hann jafnframt möguleika á því að önnur fyrirtæki gætu beðið um aðstoð við dreifingu.

Eins og staðan er núna hafa Þjóðverjar tilkynnt að þeir ætli að hefja bólusetningu 27. desember og verður þá markaðsleyfið jafnvel samþykkt fyrir jól. Gísli segir að það gæti því stefnt í nokkuð annasöm jól hjá fyrirtækinu.

Tvöföldun starfsmanna og sprengja af sér húsnæðið

Til að varpa nánara ljósi á þá sprengingu sem hefur verið í starfsemi fyrirtækisins undanfarið þá eru nú um 130 starfsmenn hjá Controlant. Gísli segir að fyrir ári síðan hafi fjöldinn verið 65 og fyrir þremur árum voru 30 manns hjá fyrirtækinu. Gerir hann ráð fyrir að vöxturinn haldi áfram og fjöldi starfsmanna í lok næsta árs verði kominn upp í um 200 manns.

Einn vaxtaverkurinn kemur fram í stærð skrifstofuhúsnæðis, en fyrirtækið hefur þurft að gera þrjár breytingar þar á á árinu að hans sögn, en það hefur komið sér þægilega fyrir í Holtasmára 1, þar sem Hjartavernd er meðal annars til húsa. Með fjölgun starfsmanna undanfarna mánuði er þó komið að því að bæta þarf við skrifstofuaðstöðu og er nú unnið að því á annarri skrifstofu í Smáranum að sögn Gísla. Þá segir hann fyrirtækið með þó nokkrar starfsauglýsingar úti og því enn að stækka. Til viðbótar við þessa 130 starfsmenn er svo talsverður fjöldi sem vinnur í teymum víða um heim til að fylgjast með vöktunum í rauntíma, svokölluð stjórnstöðvarvöktun.

Úr hálfum milljarði upp í 5-10 milljarða veltu

Sem fyrr segir eru mælar eða vöktunarkerfi fyrirtækisins nú á annað hundrað þúsund, en Gísli segir að með auknum bóluefnaflutningi á komandi ári geri fyrirtækið ráð fyrir að fjöldi vöktunarkerfa verði kominn upp í um 500 þúsund fyrir lok næsta árs. Velta fyrirtækisins á þessu ári stefnir í um einn milljarð króna, en Gísli segir það þó gefa nokkuð ranga mynd af stöðunni í dag, enda séu tekjur vegna bóluefnaflutninganna, sem stefni í að verða stærsti hluti starfseminnar á næstunni, aðeins að byrja að koma inn í desember mánuði.

Í september var gefið út að félagið hefði safnað um tveimur milljörðum í fjárfestingu og var gefið upp við það tækifæri að velta fyrirtækisins hefði í fyrra verið um 500 milljónir og að hún gæti orðið um fimm milljarðar á næsta ári. Gísli segir að áætlanir séu alltaf að hækka. „Á næsta ári gæti veltan allt eins orðið tíu milljarðar, en það er útilokað að við verðum undir fimm milljörðum,“ segir hann. Ekki eru nein áform um frekari fjármögnun eins og sakir standa núna, en þó útilokar fyrirtækið ekki að slíkt muni breytast á komandi ári.

Komin inn fyrir dyrnar hjá stóru fyrirtækjunum

En hverjar eru fyriráætlanir fyrir fyrirtæki í jafn örum vexti og Controlant er þegar horft er til næstu ára? Gísli segir að í fyrsta lagi sé bóluefnadreifing ekkert að hætta á næstunni. „Þetta verður klárlega tveggja ára verkefni, þó það fari að skalast niður á næsta ári.“ Á hinn bóginn segir Gísli að fyrirtækið sjái fram á að auka viðskipti við hin stóru lyfjafyrirtækin eftir mikinn sýnileika vegna Covid-bóluefnisins. „Við verðum komin það vel inn hjá þeim að við höldum dampi,“ segir hann.

Að lokum segir hann að þó fyrirtækið sé með starfsemi í Bretlandi, Írlandi og Bandaríkjunum og framleiðslu í bæði Póllandi og Bandaríkjunum sé áfram bróðurparturinn af starfseminni hér á landi. „Það eru engin sérstök plön að fara frá Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK