Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að tímasetning tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á eignarhluti íslenska ríkisins í Íslandsbanka vera furðulega og spyr hver eiginlega myndi vilja kaupa íslenskan banka. Hann vill forðast að aðilar í leit að skammtímaávinningi festi kaup á hlutum ríkisins og vill heldur stuðla að því að íslenskur almenningur eignist aukinn hlut í Íslandsbanka.
„Tímasetningin er hreint út sagt furðuleg. Hver myndi vilja kaupa íslenskan banka á þessum tímapunkti?“ spurði Sigmundur til baka þegar mbl.is spurði hann út í tillögur bankasýslu ríkisins.
Sigmundur virðist hafa sterkar skoðanir á sölu íslenskra banka. Hann var spurður út í það hvernig hann myndi vilja standa að slíkri framkvæmd sjálfur. Myndi hann yfir höfuð vilja selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka?
„Ef það væri liður í endurskipulagningu fjármálakerfisins, já, en á réttan hátt og á réttum tíma,“ segir hann.
„Fyrir síðustu kosningar kynntum við áætlun um hvernig þetta yrði best gert og hvernig rétt væri að fara með eignarhlut í hverjum banka fyrir sig. Þá var gert ráð fyrir að almenningur myndi eignast hlut í Arion banka með jafnri útdeilingu hlutabréfa til allra landsmanna. Kröfuhafar bankans fengu hins vegar að yfirtaka hann en e.t.v. mætti leyfa almenningi að eignast hlut í Íslandsbanka.“
Sigmundur segir að upphaflega höfðu hann og flokksmenn hans í Miðflokknum séð fyrir sér að Íslandsbanki yrði seldur til erlendra aðila. Það sé nú ekki lengur ákjósanlegt. Best væri jafnvel að landsmenn eignuðust bankann.
„Upphafleg áætlun okkar í Miðflokknum gekk út á að Íslandsbanki yrði seldur erlendum banka til að auka samkeppni á markaðnum og við færðum rök fyrir því hvernig hægt væri að gera það. En nú við breyttar aðstæður gæti verið tilefni til að landsmenn eignuðust bankann að fullu leyti eða að hluta.“
Sigmundur segir jafnframt að bæði geti verið gott og slæmt að erlendir aðilar eignuðust hluti ríkisins í bankanum. Hann var spurður hvort hann hefði áhyggjur af umsvifum erlendra aðila í íslensku bankakerfi.
„Það fer eftir því hvaða aðilar það eru. Þegar ég var í ríkisstjórn bárust vafasöm tilboð í íslenska banka frá fjarlægum löndum. Það kom ekki til greina að fallast á slíkt að mínu mati. Ég myndi auk þess ekki vilja að vogunarsjóðir eða aðrir aðilar sem leita eftir skammtímaávinningi eignuðust bankann.
Hins vegar gæti verið ásættanlegt að t.d. norrænn banki yfirtæki bankann með því skilyrði að hann yrði rekinn áfram sem hluti af hinum erlenda banka og veita þannig aukna samkeppni. Möguleikarnir á slíku eru hins vegar mjög takmarkaðir við núverandi aðstæður.“