Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem í október hafnaði þeirri kröfu Umhverfisstofnunar (UST) að þrotabú Wow air yrði gert að skila stofnuninni samtals 516 losunarheimildum inn í ETS-skráningarkerfi með losunarheimildir sem eru í umsjón UST.
Heimildirnar voru í vörslum þrotabúsins en voru svo seldar með samning í apríl 2019 til CFP Energy Limited, eins og segir í dómnum. Í úrskurði Landsréttar segir m.a. að óumdeilt sé að réttindin séu ekki lengur í vörslum þrotabúsins.
Umhverfisstofnun krafðist viðurkenningar á tiltekinni stöðu réttindanna í skuldaröð við gjaldþrotaskipti, þ.e. að um sértökukröfu væri að ræða, og skila þrotabúsins á þeim, en hefði kosið að falla frá kröfu um skil á andvirði réttindanna. Af því leiddi að ágreiningnum yrði ekki ráðið til lykta á grundvelli 2. mgr. 109 gr. laga um gjaldþrotaskipti, heldur byggðist málatilbúnaður Umhverfisstofnunar á 1. mgr. sama lagaákvæðis.
Landsréttur sagði, að ef úrskurður gengi um kröfu stofnunarinnar á þeim grunni yrði þannig komist að niðurstöðu sem ekki væri unnt að fullnægja samkvæmt efni sínu. Því var úrskurðurinn staðfestur og UST gert að greiða þrotabúinu 250.000 kr. í kærumálskostnað.