Yfirmaður Flugöryggismálastofnunar Evrópusambandsins, EASA, segist vera „handviss“ um að flugvélar Boeing, 737 MAX, geti núna flogið örugglega um loftin blá.
Patrick Ky, forstöðumaður EASA, sagði að stofnunin hans hefði „velt við hverjum steini“ er hún yfirfór þessa flugvélategund og rannsakaði þær breytingar á hönnun vélanna sem framleiðandi þeirra gerði, að sögn BBC.
Flugvélarnar voru kyrrsettar í mars á síðasta ári eftir tvö mannskæð flugslys þar sem alls 346 manns fórust.
Grænt ljós hefur þegar verið gefið í Bandaríkjunum og í Brasilíu á að vélarnar fari í loftið. EASA reiknar með því að veita samskonar leyfi í Evrópu um miðjan janúar.