Sögulega lágir vextir, góðir lánamöguleikar og sterkur kaupmáttur skýrir lífleg fasteignaviðskipti að undanförnu. Framboð af eignum hefur líka verið mikið, í september síðastliðnum seldust rúmlega 1.000 eignir á höfuðborgarsvæðinu og litlu færri í október og nóvember.
Eftirspurn var mikil sem hækkaði verð þegar seljendamarkaður myndaðist. Á árunum 2016 til 2019 voru gerðir að jafnaði um 12.000 samningar á ári vegna fasteignaviðskipta. Í ár er reiknað með um 20% aukningu, það er að samningar verði um 14.000. Þetta segir Kjartan Hallgeirsson löggiltur fasteignasali hjá Eignamiðlun og formaður Félags fasteignasala.
„Vegna mikillar sölu að undanförnu eru færri íbúðir á skrá nú en oft áður og fyrir vikið hefur ástandið aðeins róast. Hringekjan á markaðnum sem fasteignaviðskipti byggjast á fer hægar nú en var fram eftir árinu. Síðustu misseri hafa nýjar fjölbýliseignir ætlaðar fólki sextugu og eldra í talsverðum mæli komið í sölu og verið keyptar. Fyrir vikið hefur fjöldi sérbýlis- og ráðhúsa losnað,“ segir Kjartan og heldur áfram:
„Hagstæð lánakjör hafa ráðið því að til dæmis ungt fjölskyldufólk hefur tekið stökkið og keypt slíkar eignir. Farið úr litlu íbúðunum, sem fyrstu kaupendur taka kaupa en bankarnir hafa verið að bjóða allt að 90% lán. Þetta er gróf útlistun á gangi markaðarins síðustu mánuði. Hvað varðar þægilega fjármögnun við kaup á litlum eignum er nokkru leyti svarað þeim hópi sem ríkisstjórnin hefur ætlað að mæta með hlutdeildarlánum og eru að hefjast útgreiðslur á. Slík lán eru góður kostur. Við þurfum fjölbreytta lánamöguleika svo mæta megi ólíkum þörfum.“