Stjórnendur fyrirtækja og stofnana sem hlotið hafa jafnlaunavottun segja hana hafa í för með sér aukið skrifræði og kerfisvæðingu, tilfærslu ákvörðunarvalds og að vottunin sé jafnvel tálsýn.
Þetta kemur fram í niðurstöðu rannsóknar sem birtist í nýjasta tímariti Stjórnmála og stjórnsýslu, en fræðigreinina rituðu Gerða Björg Hafsteinsdóttir sérfræðingur hjá Reykjavíkurborg og Erla Sólveig Kristjánsdóttir prófessor og Þóra H. Christiansen aðjúnkt, báðar hjá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Greininni er ætlað að varpa ljósi á upplifun stjórnenda á áhrifum jafnlaunavottunar á kjaraumhverfi á íslenskum vinnumarkaði, og voru viðmælendur tíu, átta kvenstjórnendur og tveir karlkyns.
Fram kemur í rannsókninni, sem var eigindleg, að viðmælendum hafi fundist skráning og skalfesting gagna vera mun víðtækari og ítarlegri en áður, og sögðu margir það hafa orðið til aukins álags vegna krafna um rökstuðning og skráningu.
Þó sögðu stjórnendurnir að með tilkomu jafnlaunavottunar hefði flokkun allra launagagna orðið mun betri og skipulagðari en áður.
Viðmælendur sögðu úttektaraðgerðir vottunaraðila vera mjög ólíkar og lítið samræmi á milli þeirra. Misjafnt hafi verið hvaða kröfur viðmælendur þurftu að uppfylla í úttektum og snerust þær frekar um að allt væri rétt skjalfest og skráð í kerfinu en ekki að ákvarðanir byggðust á málefnanlegum rökum.
„Þessar frásagnir viðmælenda gefa til kynna að jafnlaunavottun sé að einhverju leyti tálsýn,“ segir í lokaorðum greinarinnar.
Höfundar greinarinnar taka fram að meðal takmarkana rannsóknarinnar sé það að einungis var rætt við tíu stjórnendur. „Því hafa niðurstöður þessarar rannsóknar ekki alhæfingargildi,“ segir í greininni.
Jafnlaunavottun var lögfest árið 2017 og er meginmarkmið hennar að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
Greinina má nálgast hér.