Sala smávöruverslana í Bandaríkjunum jókst um þrjú prósentustig á tímabilinu 11. október til 24. desember frá sama tímabili í fyrra. Mest munaði þar um mikla aukningu í netsölu á tímabilinu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Mastercard.
Að því er fram kemur í skýrslunni jókst netsala um 49% á tímabilinu og því ljóst að kórónuveiran hafði talsverð áhrif á kauphegðun neytenda. Þá var netsala um fimmtungur af allri jólaverslun vestanhafs.
Sökum takmarkana í Bandaríkjunum hefur netverslun aukist til muna. Þannig hafa verslanir á borð við Walmart og Target þurft að glíma við langar raðir utan við verslanir. Hins vegar hafa verslanir sem bjóða upp á netsölu í mörgum tilfellum komist ágætlega í gegnum ástandið. Í skýrslunni segir enn fremur að hugsanlegt sé að neytendahegðun sé varanlega breytt.