World Class segir upp 90 manns

World class hefur sagt upp 90 manns.
World class hefur sagt upp 90 manns. Kristinn Magnússon

World Class hefur sagt upp 90 starfsmönnum til viðbótar við þá 50 sem misstu starf sitt í nóvember. Þegar tekið er tillit til verktaka á borð við leikfimiþjálfara og einkaþjálfara einnig eru nú um 200 manns í starfi hjá fyrirtækinu en voru um 540 fyrir faraldurinn að sögn Björns Leifssonar eiganda fyrirtækisins. 

Hann segir að tapið nemi um 1,3 milljörðum króna og þetta kastið hafi starfsfólki í barnagæslu og afgreiðslu verið sagt upp. Í mörgum tilfellum séu það skólakrakkar í hlutastarfi. Segir Björn að öllum sem séu í 70% starfi eða minna hafi verið sagt upp þar sem hlutabótaleiðin nái ekki utan um þann hóp. 

„Við þurfum að fá laun, leigu og annan kostnað. Við getum ekki haldið þessu endalaust áfram án þess að fá neitt til baka,“ segir Björn. 

Björn Leifsson eigandi World Class.
Björn Leifsson eigandi World Class. Haraldur Jónasson/Hari

Hann segir að ef hægt verði að opna stöðvar fyrirtækisins innan skamms sjái hann fyrir sér að hægt verði að endurráða þá sem sagt hefur verið upp. „Um leið og ég sé viðskiptavini koma aftur verður fólk ráðið að nýju,“ segir Björn.  

Svo léleg rök að það nær ekki nokkurri átt 

Björn segist skilja lítið í þeim rökum sem haldið hefur verið uppi um lokun líkamsræktarstöðva. „Svo mega aðrar íþróttir og sundlaugar vera opnar! Rökin fyrir því að leyft sé að nota sundlaugar eru þau að sundlaugarvatnið drepi veiruna. Þarf ekki að fara í gegnum afgreiðslu og búningsklefa þar? Svo hættirðu ekkert að anda þegar þú ferð í pottinn. Þar getur komið upp dropa- og úðasmit. Sundlaugarnar drepa það ekki,“ segir Björn. 

Til samanburðar segir hann hægt að loka búningsklefum, hafa grímuskyldu, hanskaskyldu,  fjarlægðarmörk og sprittbrúsa um allt. „Þetta eru svo léleg rök að þetta nær ekki nokkurri átt,“ segir Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK