Hæstiréttur hefur kveðið upp þann dóm að Norvik, móðurfélag Byko, skuli greiða 400 milljónir króna í sekt vegna brota gegn samkeppnislögum vegna verðsamráðs við gömlu Húsasmiðjuna á árunum 2010-2011.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að sömu niðurstöðu árið 2018 en Landsréttur lækkaði sekt Byko um 75 milljónir króna, í 325 milljónir, ári síðar.
Málið snýst um umfangsmikið ólögmætt samráð Byko við gömlu Húsasmiðjuna. Árið 2015 tók Samkeppniseftirlitið ákvörðun um að leggja 650 milljóna króna sekt á fyrirtækið, eða öllu heldur móðurfélag þess Norvik, vegna samráðs sem stóð yfir á árunum 2010-2011 og fólst í því að fyrirtækin áttu í beinum reglulegum samskiptum þar sem veittar voru upplýsingar um verð, afsláttarkjör og stundum birgðastöðu á ákveðnum tegundum grófvara.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Byko til þess að greiða 400 milljónir króna í sekt með dómi sínum frá því í maí 2018, en með þeim dómi var niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að Byko hefði framið alvarlegt brot á samkeppnislögum staðfest og sektin hækkuð.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði þá áður tekið ákvörðun um að lækka 650 milljóna króna sektina sem Samkeppniseftirlitið lagði upphaflega á Byko um 585 milljónir, niður í 65 milljónir.
Taldi áfrýjunarnefndin að brot Byko væri ekki jafn alvarlegt og Samkeppniseftirlitið hefði ákvarðað – fyrirtækið hefði einungis brotið gegn samkeppnislögum en ekki EES-samningnum eins og Samkeppniseftirlitið taldi.
Gamla Húsasmiðjan viðurkenndi sök sína í málinu og með sáttarsamkomulagi við Samkeppniseftirlitið árið 2014 féllst fyrirtækið á að borga 325 milljónir króna í sekt.
Auk þessara sektargreiðslna voru sex starfsmenn fyrirtækjanna tveggja dæmdir í Hæstarétti fyrir sinn þátt í verðsamráðinu og hlutu allir utan eins skilorðsbundna fangelsisdóma.