Baldvin Már Hermannsson, forstjóri flugfélagsins Atlanta, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að allt stefni í að fyrirtækið skili jákvæðri afkomu fyrir árið 2020.
„Það stefnir í að við munum loka árinu réttum megin við núllið, sem í okkar starfsumhverfi er ekkert annað en stórkostlegt afrek,“ segir Baldvin Már, og vísar þar í hinar afar krefjandi aðstæður sem flugfélög um allan heim lentu í eftir að kórónuveirufaraldurinn brast á snemma á síðasta ári.
Hann segir niðurstöðuna sýna að flugfélagið sé ekki bara flugvélar, heldur líka starfsfólkið. „Fólkið okkar sýndi gífurlegan dugnað, útsjónarsemi og sveigjanleika og okkur tókst á mettíma að laga okkur að gjörbreyttum veruleika.“
Baldvin Már segir að farþegatekjur flugfélagins á síðasta ári séu um 75% undir því sem gert var ráð fyrir fyrirfram, en fyrirtækið hefur síðustu tvo áratugi sinnt pílagrímaflugi með bækistöðvar í Sádi-Arabíu. „Þetta tókst okkur að vinna upp með endurskipulagningu og verulegum aðhaldsaðgerðum. Við náðum að bæta tveimur fraktvélum við flotann og tókst á örskömmum tíma að breyta félaginu í fraktflugfélag. Þá náðum við metnýtingu á þær vélar frá og með september sl.“
Varðandi árið framundan segir Baldvin Már aðspurður að ekkert farþegaflug sé í vændum, allir viðskiptavinir bíði og sjái hver þróunin verður með bóluefni við Covid-19.