Útlit er fyrir að tæknirisinn Apple og bifreiðaframleiðandinn Hyundai muni gera með sér samstarfssamning. Felur samningurinn í sér framleiðslu sjálfkeyrandi rafmagnsbifreiða, en vonir eru bundnar við að skrifað verði undir samninginn í marsmánuði.
Dagblaðið Korea IT News greindi frá fyrirætlunum fyrirtækjanna fyrr í dag. Ef allt gengur eftir mun framleiðsla umræddra bifreiða hefjast árið 2024. Fregnirnar koma í kjölfar tilkynningar frá Huyndai á föstudag þar sem greint var frá því að fyrirtækið ætti í viðræðum við Apple.
Bréf bifreiðaframleiðandans hækkuðu um 20% í kjölfar tilkynningarinnar. Forsvarsmenn fyrirtækjanna hafa ekki viljað tjá sig frekar um málið umfram það sem fram kemur í tilkynningunni.
Apple hefur lengi unnið að því að þróa sjálfkeyrandi rafmagnsbifreið. Þróunin hefur tekið lengri tíma en fyrstu áætlanir höfðu ráðgert en góður gangur hefur verið undanfarna mánuði. Með samkomulaginu má gera ráð fyrir að fyrirtækið færist nú enn nær markmiðinu.