Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn, segir að sú breyting að læsa fréttatíma Stöðvar 2 frá og með 18. janúar sé liður í aðgerðum til að efla stöðina. Ljóst sé að tekjur af auglýsingamarkaði hafi dregist saman og þær dugi ekki til að halda úti fréttastofunni.
Skýtur það ekki svolítið skökku við að fara í þessa átt þegar samkeppnin er gjaldfrjálsir miðlar sem bjóða upp á fréttaþjónustu og eru í flestum tilfellum reknir af tekjum af auglýsingamarkaði?
„Við trúum því að við séum með mjög öfluga fréttaþjónustu og við teljum að okkur sé ekki stætt á því að gefa fréttatímann lengur. Hann er eitt okkar allra öflugasta efni. En það er ekki þar með sagt að við séum að draga úr fréttaþjónustunni. Vísir verður áfram öflugur miðill og fréttir verða á Bylgjunni. Áskrifendur hafa hins vegar aðgang að kvöldfréttum og fréttaþáttum,“ segir Þórhallur.
Spurður hvað hafi breyst sem leiði til þessarar ákvörðunar segir Þórhallur að auglýsingatekjur hafi dregist saman á síðasta ári vegna faraldursins hjá öllum miðlum. Hins vegar hafi áskriftum fjölgað. „Stöð 2 hefur aukið áskriftir sínar og þetta er það rekstrarform sem við ætlum að vinna út frá og þurfum að vinna út frá. Við getum ekki treyst á það að reka fréttastofu eingöngu með auglýsingatekjum,“ segir Þórhallur.
Hann vill ekki gefa upp hve marga áskrifendur þurfi svo dæmið gangi upp. „Ég ætla ekki að tjá mig um það,“ segir Þórhallur. Hann gefur ekki upp hver fjöldi áskrifta er af Stöð 2 en segir að heildarfjöldið áskrifta allra stöðva fyrirtækisins sé um 70 þúsund áskriftir.
Ef þið náið ekki þessum markmiðum um áskriftafjölda er þá hætt við því að fréttastofan verði lögð niður?
„Það er ekki í þessum áformum. Þetta er sóknaraðgerð til að styrkja fréttastofuna til framtíðar,“ segir Þórhallur.
Hann bendir á að í löndunum í kringum okkur hafi áskriftarþjónusta verið tekin upp í auknum mæli. „Einnig verður nafni efnisveitu okkar, sem er sístækkandi, breytt í Stöð 2+ og þar verður áfram hægt að nálgast innlent og erlent efni,“ segir Þórhallur.
Er sú staðreynd að RÚV er að taka stóran hluta auglýsingatekna til sín orsök þess að Stöð 2 er í þeirri stöðu sem hún er, þ.e. að auglýsingatekjur dugi ekki til að reka fréttastofuna?
„Við tökum þessa ákvörðun fyrst og fremst út frá stöðunni eins og hún er á markaði í dag. Það er ljóst að RÚV tekur til sín mjög stóran hluta auglýsingatekna af ljósvakamarkaði. En við þurfum að horfa á stöðuna eins og hún er og spyrja okkur að því hvernig reksturinn gengur upp. Við höfum metnað til að vera með öflugar fréttir 365 daga ársins. Við ætlum að halda því áfram. Við ætlum ekki að veikja fréttastofuna og þetta er aðgerð til þess,“ segir Þórhallur.