Fréttir Stöðvar 2 aðeins aðgengilegar áskrifendum

Stöð 2 verður hrein áskriftarstöð. Fréttir og tengt efni aðeins …
Stöð 2 verður hrein áskriftarstöð. Fréttir og tengt efni aðeins aðgengilegt áskrifendum. Ljósmynd/Aðsend

Frá og með 18. janúar verða kvöldfréttir Stöðvar 2 aðeins aðgengilegar áskrifendum og þannig verður grundvöllur fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar tryggður til framtíðar. Fréttir verða áfram öllum aðgengilegar í beinni útsendingu á Bylgjunni og birtast í formi myndbrota á Vísi eftir að útsendingu lýkur á Stöð 2. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn. Þar segir ennfremur að í 34 ár hafi kvöldfréttir Stöðvar 2 verið hluti af daglegu lífi þjóðarinnar. „Á þessum tíma hefur umhverfi fjölmiðla tekið miklum breytingum. Stöð 2 hefur verið leiðandi og ætlar sér að vera það áfram.“

Ætlað að tryggja fréttastofuna enn frekar í sessi

„Þetta er sóknaraðgerð. Með þessari aðgerð erum við að tryggja fréttastofuna enn frekar í sessi. Við erum þess fullviss að með stuðningi áskrifenda skapist forsendur til að standa vörð um öfluga fréttaþjónustu og framleiðslu innlends efnis. Á síðasta ári framleiddi Stöð 2 alls 48 íslenskar þáttaraðir og viðburði sem er gríðarleg aukning frá fyrri árum. Við höldum ótrauð áfram á sömu braut og kynnum á sama tíma fleiri viðskiptavinum Stöð2+, stærstu efnisveitu landsins með íslenskt efni, á áður óþekktu verði,“ segir Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjölmiðla Stöðvar 2, í tilkynningunni. 

Breyttar aðstæður kalli á nýjar áherslur

Þórir Guðmundsson, ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, segir að þessar breytingar geri þeim kleift að standa vörð um öfluga fréttaþjónustu í sjónvarpi. „Breyttar aðstæður kalla á nýjar áherslur í fjölmiðlun en það sem breytist ekki er áhersla okkar á traust, vandvirkni og nálægð við fólk. Fréttastofan verður því áfram leiðandi í miðlun frétta – á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni,“ segir Þórir.

Þá kemur fram í tilkynningunni, að áskrift að Stöð 2 fylgi framvegis aðgangur að Stöð 2+ (áður Maraþon). Það kosti kr. 7.990 kr. á mánuði. 

„Á sama tíma verður breyting á áskriftarskilmálum sem felst í því að engin binding er á áskriftum umfram líðandi mánuð. Hægt er að segja upp eða gera breytingar á áskriftum fyrir 25. hvers mánaðar sem taka þá gildi fyrsta dag næsta mánaðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka