Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson er farinn að láta aftur að sér kveða í íslensku viðskiptalífi. Hann hefur leitt hóp fjárfesta sem nú hafa náð meirihluta í olíufélaginu Skeljungi.
Sjálfur segist Jón Ásgeir sjá tækifæri í rekstri félagsins, en hörkuvinna sé fram undan. Endurhugsa þurfi reksturinn og aðlaga hann breyttum aðstæðum. Til greina kemur að selja dótturfélag Skeljungs í Færeyjum P/F Magn, en fjármagn úr sölunni getur jafnframt nýst til annarra fjárfestinga erlendis. Jón Ásgeir kveðst horfa til Bretlands þar sem hann er með sterk tengsl, að því er fram kemur í samtali við hann í ViðskiptaMogganum í dag.
Jón Ásgeir hefur haft í nógu að snúast undanfarnar vikur, en hann hefur leitt hóp fjárfesta sem fyrir áramót lögðu fram yfirtökutilboð í olíufélagið Skeljung hf. Hópurinn sem um ræðir ber heitið Strengur og tryggði sér í síðustu viku meirihluta í félaginu, eða atkvæðisrétt yfir 50,06% hlutafjár að teknu tilliti til eigin hluta. Auk þess að leiða fjárfestahópinn hefur Jón Ásgeir gegnt stjórnarformennsku í félaginu.
Ítarlega er rætt við Jón Ásgeir í ViðskiptaMogganum í dag.