Vörusala Haga jókst um 5,5%

Heimsóknum í matvöruverslanir Haga fækkaði á milli ára en meðalkarfa …
Heimsóknum í matvöruverslanir Haga fækkaði á milli ára en meðalkarfa hvers viðskiptavinar stækkaði umtalsvert. mbl.is/Hjörtur

Hagnaður Haga hf. á þriðja ársfjórðungi 2020 var 448 milljónir króna eða 1,5% af veltu samstæðunnar. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 1.947 milljónir króna. Eigið fé Haga hf. nam 25 milljörðum króna í lok nóvember 2020 og var eiginfjárhlutfall 39,8%.

Þetta kemur fram í árshlutareikningi fyrir þriðja ársfjórðung 2020 sem var samþykktur af stjórn og forstjóra Haga á stjórnarfundi fyrr í dag, 14. janúar. Þar má sjá að aukning í vörusölu var 5,5% á milli ára en á þriðja ársfjórðungi nam hún 29,8 milljörðum króna. Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs var hún 88,7 milljarðar króna.

Samkvæmt árshlutareikningnum var veltuaukning í matvöruhluta samstæðunnar góð þrátt fyrir samkomutakmarkanir. Heimsóknum í matvöruverslanir fækkaði á milli ára en meðalkarfa hvers viðskiptavinar stækkaði umtalsvert.

Vefverslanir Hagkaups fyrir leikföng og bækur og Zöru voru settar á laggirnar á þriðja ársfjórðungi og var velta langt umfram væntingar. Söluferli Útilífs og Reykjavíkur Apóteks hefur verið sett af stað.

Býst við uppskeru ávinning af nýjum áherslum

Í fréttatilkynningu segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga, að félagið sé vel í stakk búið til að takast á við áskoranir sem fylgja áframhaldandi sóttvarnaraðgerðum og breyttu neyslumynstri viðskiptavina. Horfur í rekstri Haga séu til skemmri tíma svipaðar og þær hafi verið en til lengri tíma sé gert ráð fyrir uppskeru ávinnings af nýjum stefnumótandi áherslum.

Finnur Oddsson forstjóri Haga hf.
Finnur Oddsson forstjóri Haga hf. Mynd/mbl.is

„Á heildina litið gekk rekstur á þriðja ársfjórðungi ágætlega en áhrifa heimsfaraldurs COVID-19 gætti, sem von er, á öllum sviðum rekstrar Haga. Tekjur á fjórðungnum jukust frá fyrra ári, en EBITDA var lítillega undir upprunalegum áætlunum og sama tímabili í fyrra.  Heilt yfir erum við sátt við niðurstöður fjórðungsins, einkum í ljósi þeirra áskorana sem COVID-19 faraldurinn skapar jafnt hérlendis sem annars staðar. Mestu skiptir að félagið er vel í stakk búið að takast á við þær ögranir sem fylgja áframhaldandi sóttvarnaraðgerðum og breyttu neyslumynstri viðskiptavina okkar.

Umsvif hafa haldið áfram að aukast í dagvöruverslun, í Bónus og Hagkaup. Tekjur vegna dagvöru jukust um ríflega 15% frá fyrra ári en aukningin var töluvert meiri í sérvöruverslun á vegum Haga.  Það var sérlega ánægjulegt að fylgjast með góðu gengi netverslunar á tímabilinu, einkum með leikföng og bækur hjá Hagkaup og fatnað og útivistarvöru hjá Zöru og Útilíf. Framlegð hefur hins vegar heldur dregist saman og talsverður kostnaður fallið til vegna sóttvarna- og öryggisgæslu, til að tryggja öryggi viðskiptavina og starfsfólks sem best á öllum tímum. Þrátt fyrir ágæta veltuaukningu er niðurstaðan því svipuð afkoma úr þessum þætti rekstrar Haga. Eins og búist var við gætir enn neikvæðra áhrifa á tekjur og afkomu Olís, samfara minni umferð á vegum og samdrætti í umsvifum atvinnulífs. Skýringin á lakari afkomu samstæðu liggur því að mestu hjá eldsneytissviði starfseminnar. 

Við gerum ráð fyrir að áhrifa faraldursins á rekstur Haga gæti áfram, a.m.k. fram á vor- og sumarmánuði.  Áhrif á verslunar- og vöruhúsarekstur Haga verða frekar jákvæð en neikvæð, en viðskiptavinir hafa lagað sig að þessum nýju aðstæðum með breyttri neysluhegðun, færri heimsóknum í verslanir og stærri meðalkaupum í hverri ferð. Þetta endurspeglast m.a. í kröftugri verslun fyrir jólin, þar sem tekjur jukust áfram svipað og mánuðina á undan og afkoman sömuleiðis. Til að bregðast við áframhaldandi neikvæðum áhrifum á rekstur Olís höfum við þegar skipulagt og að hluta til innleitt aðgerðir sem munu leiða til varanlegs rekstrarhagræðis.

Horfur í rekstri Haga til skemmri tíma eru því svipaðar og verið hefur undanfarna mánuði.  Til lengri tíma gerum við ráð fyrir að uppskera ávinning af nýjum stefnumótandi áherslum, þ.m.t. þrengri fókus um starfsemi félagsins, auknu samtali við viðskiptavini og þróun þjónustu okkar þannig að hún falli ávallt sem best að þörfum viðskiptavina, núverandi og nýjum.  Úrvinnsla stefnu- og skipulagsvinnu síðustu mánaða gengur vel, söluferli sérvörueininga vinnst samkvæmt áætlun og við höfum boðið nýja liðsmenn velkomna í teymið sem mun, sem fyrr, vinna að því markmiði að efla hag neytenda með framúrskarandi verslun,“ er haft eftir Finni í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK