Gengi krónunnar lækkaði um 10,4% á árinu 2020 og heildarvelta á millibankamarkaði með gjaldeyri jókst um 124% frá fyrra ári. Covid-19-farsóttin hafði mikil áhrif á innlendan gjaldeyrismarkað og átti Seðlabankinn umfangsmikil gjaldeyrisviðskipti til að draga úr sveiflum og bæta verðmyndun á markaðnum. Þetta kemur fram á vef Seðlabanka Íslands.
Á árinu nam hrein gjaldeyrissala Seðlabankans 132,7 milljörðum króna. Gengið lækkaði mest í mars í kjölfar þess að fyrstu tilfelli Covid-19 greindust hér á landi en meiri stöðugleiki náðist mánuðina á eftir.
Hlé lífeyrissjóða á gjaldeyriskaupum til erlendra fjárfestinga gegndi veigamiklu hlutverki í að viðhalda gengisstöðugleika. Seðlabankinn átti einnig gjaldeyrisviðskipti vegna umfangsmikilla fjármagnsviðskipta erlendra aðila á árinu í tengslum við sölu á innlendum verðbréfum og viðskipti með aflandskrónur. Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 816,7 ma.kr. í árslok eða um 30% af vergri landsframleiðslu.