Íslenska sprotafyrirtækið GEMMAQ hefur birt svokölluð kynjagleraugu fyrir 500 stærstu fyrirtækin á Bandaríkjamarkaði (Fortune 500), sem og þau fyrirtæki sem eru með skráð hlutabréf á Kauphöll Íslands. Á lesborði fyrirtækisins hægt er að skoða kynjahlutföll fyrirtækja sem og einkunnir á kynjakvarða GEMMAQ.
Lesborðið, sem unnið var í samstarfi við hugbúnaðarhúsi Kóða, er það fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu, en hvergi annars staðar er sambærilegur vettvangur þar sem kynjahlutföllum stærstu fyrirtækjanna á Bandaríkjamarkaði er varpað fram með myndrænum hætti.
GEMMAQ var nýlega á lista yfir 50 frambærilegustu sprota sem tengjast New York, en listinn var valinn af velnefnd New York VC Network sem samanstendur af fulltrúum vísifjárfesta, englafjárfesta, frumkvöðlum og starfsfólki Fortune 500 fyrirtækja.
Kynjakvarði GEMMAQ er einnig sýnilegur á Keldunni fyrir íslenskan markað, en mælikvarðinn veitir fjárfestum og almenningi upplýsingar um kynjahlutföll í leiðtogastörfum fyrirtækja sem eru með skráð hlutabréf eða skuldabréf í Kauphöll Íslands.
Kvarðinn tekur til greina kyn forstjóra og stjórnarformanna fyrirtækja, sem og hlutfall kvenna í stjórn og framkvæmdarstjórn. Séu kynjahlutföll í stjórnunarstöðum jöfn fær fyrirtækið 10 í einkunn, en ef engar konur gegna áðurnefndum stöðum fær fyrirtækið 0 í einkunn.
Kvarðinn er úr 1 upp í 10, en það var Sjóvá sem var fyrst íslenskra fyrirtækja til að fá einkunnina 10. Í dag er Sjóvá, ásamt Marel og VÍS meðal efstu félaga á Aðalmarkaði Kauphallarinnar með einkunnina 9,0. Meðaleinkunn á GEMMAQ kvarðanum fyrir íslenskan markað er 6,87, en á meðal Fortune 500 fyrirtækja er meðaleinkunnin um 5,0.
Fjárfestingar með kynjagleraugum hafa vaxið mikið og horfa fjárfestar og almenningur almennt meira til jafnréttismála við mat á fyrirtækjum og fjárfestingakostum. Árið 2019 námu fjárfestingar með kynjagleraugum rúmlega 3,4 milljörðum Bandaríkjadala, en árið 2014 námu þær aðeins hundruðum þúsunda dala.